Skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:49:16 (7669)

2004-05-05 14:49:16# 130. lþ. 110.4 fundur 624. mál: #A skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KJúl
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. vildi meina að kerfið yrði flóknara við endurskoðun. Ég verð að segja alveg eins og er að ég sé ekki flækjuna í því að aðskilja grunnrekstrarliði frá öðrum sem yrðu þannig tengdir nemendafjölda. Það kæmi grunnupphæð á hvern skóla. Ef eitthvað er mundi ég halda að það einfaldaði margt.

Ég dró alls ekki í efa í ræðu minni gildi líkansins sjálfs, þ.e. hugmyndafræðina þar á bak við. Hugmyndafræðin, hugmyndin sjálf, er góð. Grunnhugmyndin um hlutlæga útdeilingu fjár er ákaflega góð. Praxísinn á þessu líkani hefur hins vegar ekki staðið fyllilega undir væntingum. Er það af mörgum ástæðum og fannst mér hv. þm. Einar Már Sigurðarson lýsa því afar vel áðan.

Reiknilíkanið hefur einhvern veginn ekki þennan innbyggða möguleika á að fylgja þróuninni sem felur í sér ýmsa kostnaðarliði og hlutföll sem breytast.

Mér finnst mikilvægt að líta til þess að nú eru sex ár liðin frá því að líkanið tók gildi og því teldi ég eðlilegt að menn legðust dálítið yfir það. Þetta er alveg gríðarlega flókið líkan. Það þarf að mæla það við skólana eins og þeir eru í dag og eins og þeir hafa þróast undanfarið, mismunandi skóla. Þá á ég við jafnólíka skóla og hinn títtnefnda Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og síðan t.d. Menntaskólann í Reykjavík. Ég held að við mundum fá mikið út úr slíkri raunathugun.