Þjóðminjasafnið

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:53:44 (7671)

2004-05-05 14:53:44# 130. lþ. 110.5 fundur 670. mál: #A Þjóðminjasafnið# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Hæstv. menntmrh. hefur tekið upp þá skemmtilegu venju að þegar ég legg fram fyrirspurn á þinginu um Þjóðminjasafn Íslands svarar ráðherrann í fjölmiðlunum, a.m.k. að hluta til. Þetta er afar ánægjulegt og gaman að hafa þessi keðjuverkandi áhrif á upplýsingastreymið í samfélaginu. Þetta er meðal forréttindanna við það að vera þingmaður á Alþingi við hina góðu leiðsögn hæstv. menntmrh.

Það hefur ekkert þótt liggja á að svara fyrirspurn minni hér vegna þess að svarið við fyrsta liðnum hefur legið fyrir í fjölmiðlum. Fyrirspurnin er nú orðin rúmlega tveggja mánaða gömul. Fyrirspurninni um dagsetningu opnunar Þjóðminjasafnsins hefur þegar verið svarað, sjálfum mér og öllum landslýð til gleði og ánægju. Ég get upplýst þingmenn um að 1. september muni vera þar í sigtinu. Það er skemmtilegt að það skuli verða í september því í september gerist svo margt og svo margt gerist í september.

Hinir tveir liðirnir í þessari fyrirspurn standa þó eftir fyrir hæstv. ráðherra að svara með sínum ánægjulega hætti. Þeir eru svona:

Hversu háa fjárveitingu hyggst ráðherra sækja á aukafjárlögum fyrir árið 2004 vegna opnunar Þjóðminjasafnsins í sumar? Ég bendi hv. þingmönnum á að sumarið er hér skilgreint sem sá helmingur ársins frá fornu fari sem stendur frá sumardeginum fyrsta og fram á fyrsta vetrardag þannig að 1. september fellur innan þess ramma.

Hver er áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar frá 1. ágúst 1998 þegar safnhúsinu var lokað? Hvernig skiptist sá kostnaður á ár og verkliði?