Þjóðminjasafnið

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:55:54 (7672)

2004-05-05 14:55:54# 130. lþ. 110.5 fundur 670. mál: #A Þjóðminjasafnið# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Það er rétt að bæta því við að að auki höfum við hv. ágætur þm. Mörður Árnason líka átt einhver orðaskipti um þetta tiltekna mál í óundirbúnum fyrirspurnum.

Hv. þm. hefur beint til mín þremur spurningum sem ég ætla að svara. Við erum búin að svara þeirri fyrstu, þ.e. hvenær í sumar á tímabilinu frá 18. júní til 22. október Þjóðminjasafnið við Suðurgötu verður opnað að nýju. Eins og staða framkvæmda er í dag er ætlunin og stefnan og undirbúningur hafinn að því að opna Þjóðminjasafnið þann 1. september nk. Eins og hv. þm. gat um gerast ýmsir hlutir þá, (Gripið fram í.) allt ánægjulegir hlutir og þeir koma til með að gerast hversu vænlegir sem þeir síðan verða.

Hversu háa fjárveitingu hyggst ráðherra sækja á aukafjárlögum fyrir árið 2004 vegna opnunar Þjóðminjasafnsins í sumar? spyr hv. þm.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja til við Alþingi að á fjáraukalögum þessa árs verði varið 100 millj. kr. til þess að unnt verði að ljúka verklegum framkvæmdum við safnhúsið við Suðurgötu á þessu ári og með þessari fjárhæð er ætlunin að klára verkið allt saman og inni í þessu er þá m.a. turninn. Hv. þm. veit nákvæmlega hvað ég er að meina þegar ég tala um turninn. Þá eru allar framkvæmdir honum tengdar kláraðar líka og hægt að opna húsið með sóma.

Hver er áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar frá 1. ágúst 1998 þegar safnhúsinu var lokað? Hvernig skiptist sá kostnaður á ár og verkliði?

Framkvæmdir við endurbyggingu og uppsetningu sýningar í húsi Þjóðminjasafns við Suðurgötu eru alls áætlaðar 1.274 millj. kr. og við það bætist kostnaður vegna skrifstofu- og geymsluaðstöðu fyrir safnið sem féll til fyrst og fremst á árunum 1998 og 1999, eða alls um 144 millj. kr. Kostnaður við framkvæmdir er tengdust húsi safnsins við Suðurgötu var á árinu 1998 um 20 millj. kr., mest þá vegna hönnunar. Á árinu 1999 um 55 millj. kr. vegna rifs og hreinsunar innan húss auk frekari undirbúningsvinnu. Árið 2000 var 105 millj. kr. varið til að ljúka hreinsun, steypa upp nýtt anddyri og til undirbúnings grunnsýningar. Á árinu 2001 hófust endurbætur innan húss sem hafa staðið fram til þessa. Á því ári var kostnaður 123 millj. kr., 260 millj. kr. á árinu 2002 og 238 millj. kr. á síðasta ári. Til að ljúka framkvæmdum við húsið og sýningu er talið að 473 millj. kr. þurfi á þessu ári.

Mig langar líka að geta þess hvernig skipting kostnaðar á helstu verkliði er en hún er sem hér segir: Hönnun, umsjón og eftirlit eru 135 millj. kr., rif og hreinsun 69 millj. kr., endurbætur verklegra framkvæmda innan húss og utan eru 621 millj. kr., lóð og bílastæði 80 millj. kr., grunnsýning 289 millj. kr. Annað, eins og búnaður, opinber gjöld o.fl., er um 80 millj. kr. Samtals gerir þetta um 1.274 millj. kr. og vona ég að ég hafi náð að svara spurningum hv. þingmanns með sem mestri nákvæmni.