Þjóðminjasafnið

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:59:41 (7673)

2004-05-05 14:59:41# 130. lþ. 110.5 fundur 670. mál: #A Þjóðminjasafnið# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Það er auðvitað ánægjuefni að nú skuli sjá fyrir endann á framkvæmdum við Þjóðminjasafnið. Vonandi stendur þessi síðasta dagsetning sem nefnd hefur verið, þ.e. 1. september. Þær eru margar, þessar dagsetningar sem við höfum heyrt frá því að framkvæmdirnar hófust.

Athugasemd mín varðar fyrst og fremst þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur samþykkt 100 millj. kr. framlag vegna verklegra framkvæmda við þessar breytingar. Það er athyglisvert vegna þess að það var til umræðu þegar fjárlög voru samþykkt fyrir jólin síðustu að aukið fjármagn þyrfti til Þjóðminjasafnsins. Við því var ekki orðið. Ríkisstjórnin hefur sem sagt samþykkt þetta og það er greinilega hefðin í þessari blessuðu ríkisstjórn, að haga sér eins og áður og fara ekki eftir fjárlögunum því ekki hefur fjárln. fengið að heyra neitt um þessa samþykkt eins og gert er þó ráð fyrir að henni sé tilkynnt um.

Spurning til hæstv. ráðherra er sú hvort inni í þessari upphæð sé líka sá kostnaður sem áætlaður er vegna sýningar sem fyrirhugað er að koma upp þegar Þjóðminjasafnið verður opnað. Þar um var ósk í fjárlögum, að sérstök fjárveiting kæmi. Er hún inni í þessum 100 millj. eða kemur hún til viðbótar síðar?