Hverfaskipting grunnskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:06:00 (7676)

2004-05-05 15:06:00# 130. lþ. 110.6 fundur 772. mál: #A hverfaskipting grunnskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Þriðjudaginn 10. febrúar á þessu ári segir frá því í ritstjórnargrein Morgunblaðsins að hæstv. ráðherra menntamála, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, hafi gefið yfirlýsingu á ráðstefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna um skólamál þess efnis að fjármunir til grunnskólamenntunar barna verði bundnir við nemendur sem stuðli að frjálsu vali nemenda og foreldra á milli ólíkra skóla.

Hæstv. ráðherra lýsti sig jafnframt jákvæða gagnvart því að rifnir yrðu niður múrar milli skólahverfa þannig að fólk gæti valið milli skóla fyrir börn sín, þ.e. að hverfaskólafyrirkomulagið yrði lagt af og tekið yrði upp ávísanakerfi fyrir grunnskólabörn á skólana.

Það má leiða að því líkum að gengju þessar hugmyndir eftir mundu þær leiða til endaloka á fyrirkomulagi hverfaskólanna og upptöku einhvers konar óútfærðs ávísanakerfis á börnin þar sem foreldrar fá sendan tékka í pósti með hverju barni og þeir velji skólann og bæti við þeim upphæðum sem á vantar.

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að á grunnskólastiginu starfi sjálfstæðir skólar til hliðar við hina opinberu en þarna þarf að stíga ákaflega varlega til jarðar þar sem annað kerfi en það sem nú tíðkast getur leitt af sér og mundi leiða af sér mjög ómarkvissa og dýra uppbyggingu skólamannvirkja og að auki gæti það leitt til efnalegs ójafnræðis milli barna til að sækja sér grunnskólamenntun allt eftir fjárhag foreldra og aðstandenda.

Hins vegar er valfrelsið þar til hliðar með sjálfstæðu skólunum ágætt og með skólum á borð við Hjallastefnuskóla Margrétar Pálu Ólafsdóttur og Ísaksskóla blandast fáum hugur um að þeir bæti okkar skólakerfi og séu til góðs. Hins vegar tel ég mjög óráðlegt bæði út frá hagsmunum hins opinbera og barnanna að afnema hverfaskólana, enda tryggja þeir öllum börnum jafnan aðgang að fyrsta flokks og framúrskarandi skólum, ef vel er á málum haldið, óháð efnalegri stöðu foreldra sinna og uppalenda.

Hæstv. ráðherra þarf að taka mjög afdráttarlaust af skarið með stefnu sína í málinu og hvað hún hafi átt við með yfirlýsingu sinni sem ég vísaði til áðan enda um að ræða, ef það gengi eftir, algera grundvallarbreytingu á skólakerfi okkar Íslendinga og að mati margra aðför að jafnrétti til náms í grunnskólum. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

1. Telur ráðherra að hætta eigi hverfaskiptingu grunnskólanna? Ef svo er, telur ráðherra að samhliða því ætti að fela einkaaðilum rekstur grunnskólanna í ríkari mæli en nú er gert?

2. Telur ráðherra að misjöfn nýting á húsnæði grunnskólanna útiloki afnám hverfaskiptingarinnar?