Hverfaskipting grunnskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:09:10 (7677)

2004-05-05 15:09:10# 130. lþ. 110.6 fundur 772. mál: #A hverfaskipting grunnskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Samkvæmt gildandi grunnskólalögum frá árinu 1995 er skólahverfi samkvæmt 11. gr. sú eining sem stendur að einum grunnskóla eða fleirum. Sveitarfélag sem rekur tvo eða fleiri grunnskóla telst samkvæmt grunnskólalögum eitt skólahverfi. Þó er heimilt að skipta sveitarfélagi í fleiri skólahverfi samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar. Sveitarfélög geta sameinast um rekstur grunnskóla og mynda þá eitt skólahverfi. Samkvæmt 12. gr. grunnskólalaganna skal vera skólanefnd í hverju skólahverfi sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni.

Eftir flutning grunnskólans til sveitarfélaga sem kom til framkvæmda 1. ágúst 1996 hefur ábyrgð á grunnskólahaldi verið í höndum sveitarstjórna samkvæmt lögum um grunnskóla. Hver sveitarstjórn hefur skyldur gagnvart þeim börnum á skólaskyldualdri sem eiga lögheimili innan marka sveitarfélagsins og greiðir kostnað af skólahaldi. Almenn viðmiðun laganna er að eitt sveitarfélag sé eitt skólahverfi. Sveitarfélögunum er þó heimilt að skipa skólamálum með ýmsum hætti innan ramma laganna eins og við þekkjum svo vel.

Menntmrn. skilgreinir ekki að öðru leyti hverfaskiptingu í grunnskólum umfram það sem kemur fram í lögunum um grunnskóla.

Ég hef skipað starfshóp til að yfirfara lögin um grunnskóla frá árinu 1995 og er starfshópnum í fyrsta lagi ætlað að meta þörf á breytingu laganna með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er eftir að grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna árið 1996. Í öðru lagi er hópnum ætlað að fara yfir þau atriði sem lúta að framkvæmd grunnskólalaganna og úrskurðum ráðuneytisins er framkvæmdinni tengjast á síðustu árum. Í þriðja lagi er síðan starfshópnum ætlað að yfirfara þau ákvæði laganna sem varða heimildir til stofnunar og reksturs einkarekinna grunnskóla, viðurkenningu þeirra og rétt til opinberra fjárframlaga og skal þar m.a. tekið tillit til gildandi laga um þau málefni á Norðurlöndunum. Starfshópurinn hefur nýhafið störf og tillagna er að vænta frá honum líklega nú í haust.

Ég hef lýst því yfir að ég telji eðlilegt að einkaaðilar geti í auknum mæli tekið að sér rekstur grunnskóla með skilgreindum viðmiðunum um viðurkenningu á rétti til opinberra fjárframlaga. Það þýðir þó ekki að horfið sé frá því að sveitarfélög beri ábyrgð á rekstri grunnskóla. Ég tel að sveitarfélög eigi frekar að fá meira ákvörðunarvald í ýmsum málum sem snerta skólahald í grunnskólunum. Eðlilegt er að ákvörðun um útfærslu á hverfaskiptingu grunnskóla sé tekin af sveitarfélögunum í víðtæku samráði við hagsmunaaðila skólasamfélagsins.

Ég vil líka benda á m.a. þær leiðir sem sveitarfélög hafa farið og þær eru mjög misjafnar. Ég get nefnt Garðabæ sem dæmi um að þar hefur einkaaðila verið falið að sjá um grunnskóla. Sá grunnskóli fær sömu fjárframlög og aðrir grunnskólar á hvert barn. Þar af leiðandi geta foreldrar valið um, án tillits til þess hvað það kostar því það er allt endurgjaldslaust, fleiri grunnskóla fyrir hönd barna sinna þannig að þar hefur valfrelsi tvímælalaust verið aukið og um leið má þá vænta þess að gæði skólastarfsins komi líka til með að aukast með aukinni fjölbreytni.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Telur ráðherra að misjöfn nýting á húsnæði grunnskólanna útiloki afnám hverfaskiptingarinnar?``

Ég ætla ekki að taka afstöðu í þessu máli, enda alfarið að mínu mati sveitarfélaganna að útfæra skólahverfaskiptingu innan og milli sveitarfélaganna samkvæmt grunnskólalögunum. Telji sveitarfélög sig hafa hag af því að standa saman að rekstri grunnskóla til að nýta sem best fyrirliggjandi skólahúsnæði þá er ákvörðunarvald í þeim efnum alfarið hjá sveitarfélögunum sjálfum. Í öllum slíkum málum er eðlilegt að mínu mati að sveitarfélögin hafi víðtækt samráð um skipan mála og kynni allar fyrirhugaðar breytingar rækilega fyrir starfsfólki skólanna, foreldrunum og nemendunum sjálfum.