Hverfaskipting grunnskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:15:09 (7678)

2004-05-05 15:15:09# 130. lþ. 110.6 fundur 772. mál: #A hverfaskipting grunnskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ISG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegi forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að það mál sem hér er til umfjöllunar fái einhverja umræðu á Alþingi, þ.e. hvernig við sjáum fyrir okkur skipulag skólastarfs í landinu, hver á að vera grundvallarregla og grundvallarviðmiðið í skipulagi skólastarfs. Ég er þeirrar skoðunar að hverfisskólinn eins og við þekkjum hann og eins og hann hefur þróast á Íslandi í áratugi sé mjög mikilvæg þungamiðja í skólastarfi á grunnskólastiginu og við eigum að standa vörð um hann um leið og við tryggjum auðvitað að fólk geti átt ákveðið val um aðra skóla ef barn af einhverjum ástæðum þrífst ekki í hverfisskóla sínum, ef foreldrar hafa sérstök rök fyrir því að vilja láta barnið sækja annan skóla en sinn hverfisskóla. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég vil koma því á framfæri að við stöndum vörð um hverfisskólann. Ég gæti haldið langa ræðu um af hverju ég er þeirrar skoðunar en ég held að það sé ákveðinn grundvöllur í lýðræðisþróun og ákveðin fjölbreytni sem ríkt hefur og jafnræði í íslensku samfélagi og þess vegna sé mjög mikilvægt út frá mennta- og menningarlegum forsendum að við gerum það. Ég verð hins vegar að játa að ég var óskaplega litlu nær um viðhorf ráðherrans í þessum málum eftir það svar sem hér kom fram og tel að ræða þurfi þessi mál ítarlegar á síðari stigum.