Hverfaskipting grunnskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:17:28 (7680)

2004-05-05 15:17:28# 130. lþ. 110.6 fundur 772. mál: #A hverfaskipting grunnskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Ég held að menn verði að fara að hlusta betur eða ég verði að fara að taka þær ábendingar til mín að fara í betri og meiri framsagnarkennslu því að ég reyndi að svara mjög gaumgæfilega þeirri spurningu sem hv. þm. bar til mín. En ég vil líka minna hv. þm. á að það eru lög í landinu sem gilda um sjálfræði sveitarfélaganna í þessum málum. Auðvitað er það sveitarfélaganna að ákveða hvort þau vilja afnema hverfaskiptinguna eða ekki. Mér þykir vænt um að hv. fyrirspyrjandi skuli vitna ítrekað í Morgunblaðið og ég held að hann ætti að gera meira af því því þá yrði viska hans mun meiri, en þar kemur stefna mín nákvæmlega fram í því sem hann las upp áðan. Ég er hlynnt því að fólk fái aukið valfrelsi, að ekki sé grafið undan þeim örfáu sjálfstæðu skólum sem fyrir eru í landinu sem m.a. Reykjavíkurborg hefur gert með að draga úr þeim grundvelli og veikja þann grundvöll sem sjálfstæðu skólarnir og merku skólastofnanir eins Landakotsskóli (BjörgvS: Hvað meinarðu ... hafa gert það?) og Ísaksskóli --- ég held einmitt að hv. þm. ætti að lesa Morgunblaðið oftar til að fá það staðfest. Ég tel það tvímælalaust eina af skyldum mínum sem menntmrh. að byggja undir þennan grundvöll sjálfstæðra skóla svo lengi sem jafnrétti til náms sé ekki ógnað. Við eigum að fara þá leið, sem að mínu mati er mjög ákjósanleg, sem m.a. hefur verið farin í Garðabæ, að auka frelsi foreldra og nemenda í grunnskólanáminu en það er sveitarfélaganna að ákveða. Það er skoðun mín að við eigum að auka valfrelsið, auka fjölbreytnina með það í huga að efla gæði námsins og að fjölbreytni fyrir nemendur verði meiri líka í grunnskólanum, ekki bara á framhaldsskóla- og háskólastigi. Ég held, virðulegi forseti, að hafi hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lagt sig eftir því og hafi hann haft vilja og getu til, hefði hann glögglega mátt greina hið skýra og góða svar mitt áðan við fyrirspurn hans.