Hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:26:32 (7683)

2004-05-05 15:26:32# 130. lþ. 110.8 fundur 778. mál: #A hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Björgvin G. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Í vetur hafa nokkrum sinnum átt sér stað umræður um kröfur Lánasjóðs íslenskra námsmanna um ábyrgðarmenn, bæði í þeirri fyrirspurn sem hv. fyrirspyrjandi Jónína Bjartmarz vitnaði til áðan og einnig í tveimur lagafrumvörpum. Annars vegar frá nokkrum þingmönnum Framsfl. og auk þess frá okkur þingmönnum Samf. um að afnema kröfu lánasjóðsins um ábyrgðarmenn á lánin og að hluti þeirra breytist í styrk að námi loknu hafi eðlilegum námshraða verið haldið, en hægt er að fullyrða að krafan um ábyrgðarmenn á lánin hjá Lánasjóði íslenskra starfsmanna standi því hlutverki sjóðsins fullkomlega fyrir þrifum að hann sé félagslegur jöfnunarsjóður og eigi að tryggja jafnrétti allra til náms. Til eru fjölmörg dæmi um að fólk hafi annaðhvort hrakist frá námi eða ekki getað sótt sér menntun og nám vegna þess að það hefur ekki aðgang að fjársterkum ábyrgðarmanni sem er tekinn til greina. Því ætti breyta með þeim hætti að námsmenn sjálfir undirriti sjálfskuldarábyrgð við upphaf lántöku en þurfi alls ekki að ganga bónarveg til einhverra þeim tengdum til að gangast í ábyrgðir fyrir lán sín.