Hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:27:46 (7684)

2004-05-05 15:27:46# 130. lþ. 110.8 fundur 778. mál: #A hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég er nýliði á þingi eins og menn vita og núna síðustu daga eða vikur hef ég tvisvar hlýtt á umræður um svokallaðan vilja þingsins eða þingvilja sem ég hef síðan leitað að í stjórnarskránni og þingsköpunum en ekki fundið. Sé um þingvilja að ræða þá er hann hins vegar orðinn ljós í þessu máli. Það er nefnilega meiri hluti á þinginu fyrir því að ábyrgðamannakerfið verði aflagt á námslánunum. Sá meiri hluti kemur fram í tillögu frá samfylkingarmönnunum sem ég fullyrði eða segi frá að allir samfylkingarmenn styðja og síðan kemur hann fram í tillögu frá framsóknarmönnum og hefði kannski verið nær að flytja þær saman og ég geri ráð fyrir því og reikna með því, sé því ekki sérstaklega mótmælt, að allir framsóknarmenn styðji þá tillögu, enda er hún þannig fram borin að það er eðlilegt að álykta sem svo. Það er meiri hluti á þinginu og ég þykist vita um fleiri sem eru sama sinnis þannig að við getum haft hraðar hendur í vor, á þeim tíma sem hæstv. ráðherrar hafa af góðmennsku sinni gefið okkur til breytinga í þágu lands og þjóðar, og samþykkt þá tillögu að afnema þetta óréttláta og ósanngjarna ábyrgðarmannakerfi.