Hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:30:24 (7686)

2004-05-05 15:30:24# 130. lþ. 110.8 fundur 778. mál: #A hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Verið er að ræða um ábyrgðarmenn á námslánum. Sumir hv. þm. hafa farið mikinn og vilja alls ekki hafa neina ábyrgðarmenn og ekki bara neina ábyrgðarmenn á lánum yfir höfuð í landinu, að það sé lausnin. En það er alveg ljóst að innheimta á námslánum mun verða lakari ef engir ábyrgðarmenn eru, ég held að það sé alveg kristaltært. Og allar fullyrðingar um að menn hafi þurft að hrekjast frá námi vegna þess að þeir hafi ekki getað útvegað ábyrgðarmenn á lán eru mjög orðum auknar svo vægt sé til orða tekið. Það eru til aðrar leiðir sem verið er að kanna núna. Það er spurning hvort til séu aðrar leiðir til að tryggja ábyrgðir á námslánum heldur en einungis persónulegar ábyrgðir, það geta verið ábyrgðir lögaðila, nokkuð sem verður væntanlega kannað í vinnu þeirrar ágætu nefndar sem nefnd var áðan. En námslánakerfið sem er í gangi hér á landi er það besta í heimi, fullyrði ég, og mér finnst mjög ósanngjarnt af hv. þingmönnum, virðulegi forseti, að reyna að tala það niður enn og aftur.