Brottfall nemenda úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:36:22 (7689)

2004-05-05 15:36:22# 130. lþ. 110.7 fundur 777. mál: #A brottfall nemenda úr framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JBjart
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz):

Frú forseti. Eitt af því sem tínt var til á haustmánuðum sem rök fyrir styttingu náms til stúdentsprófs var aukin þjóðhagsleg hagkvæmni og framleiðni skólanna og bætt afkoma heimilanna með betri nýtingu á tíma og fjármunum bæði nemenda og foreldra. Rökin fyrir markvissum aðgerðum gegn brottfalli nemenda eru öll þau sömu hvert svo sem raunverulegt brottfallshlutfallið er. En upplýsingarnar eru sannarlega misvísandi. Á liðnum árum hefur gjarnan verið kastað fram tölunni 30--40% en ef marka má skýrsluna er það mun meira í almennu bóknámi og stúdentsnámi eða heil 58% því aðeins um 42% þeirra sem hefja bóknám til stúdentsprófs ljúka því. Meðalfjöldi þeirra nemenda sem hófu nám á fyrsta námsári var 4.631 árin 1992--2004 en meðalfjöldi brautskráðra stúdenta á sama árabili var aðeins 1.963. Brottfallið er þó mun minna í starfsnámi en munurinn á fjölda þeirra sem hefja starfsnám og ljúka því er að meðaltali 36% en á árabilinu 1995--2000.

Samkvæmt svari hæstv. ráðherra á þskj. 1406 við skriflegri fyrirspurn á þskj. 918 er á hinn bóginn brottfallið skilgreint sem hlutfall nemenda sem hurfu frá námi á milli skólaáranna 2002--2003 og þá er talað um aðeins 15% brottfall. En burt séð frá því, frú forseti, hvert brottfallið er þá er ljóst að það er ekki mörgum íslenskum rannsóknum til að dreifa á þessu sviði og ein meginheimildin um brottfallið og ástæður þess er skýrsla Kristjönu Stellu Blöndal og Jóns Torfa Jónassonar frá því í nóvember 2002 um afstöðu til skóla og félagslega og sálfræðilega þætti en í niðurlagi þeirrar skýrslu er fjallað um forspár um brottfall og þar segir m.a., og það kom ekki á óvart, að fyrri námsárangur spái fyrir um það, en samkvæmt niðurstöðum virðist jafnmiklu máli skipta að nemendum finnist þeir fá stuðning frá foreldrum sínum í námi og að þeir upplifi samræmi á milli eigin námsvals og áherslna foreldra sinna. Auk þess skipti afstaða til náms máli og þá benda höfundar á að hægt sé að bregðast við með því að hjálpa nemendum að finna hvar vilji þeirra og áhugi liggi, að sumu leyti með því að breyta umhverfi skólans og að sumu leyti með því að hafa áhrif á stuðning í nánasta umhverfi.

Frú forseti. Ein megináhersla Framsfl. árum og áratugum saman er að tryggja jafnrétti til náms og á síðasta flokksþingi okkar var bent á þá leið í ályktun að stórauka náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum í samvinnu við atvinnulífið. Fyrrgreindar rannsóknarniðurstöður sýna að mínu mati jafnframt augljósa þörf fyrir aðkomu foreldra, ráðgjöf og stuðning við nemendur og erlendar kannanir sýna það sama.

Með vísan til þessa, frú forseti, beini ég þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvort hún hafi í hyggju að beita sér fyrir aðgerðum til að draga úr brottfalli nemenda úr framhaldsskólum og hvort reynt hafi verið að reikna út kostnað samfélagsins vegna brottfallsins.