Brottfall nemenda úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:43:43 (7691)

2004-05-05 15:43:43# 130. lþ. 110.7 fundur 777. mál: #A brottfall nemenda úr framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Björgvin G. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir ágæta fyrirspurn og nauðsynlega. En fyrst hæstv. menntmrh. nefndi það þá komu fram tillögur á haustdögum um styttingu náms til stúdentsprófs sem ollu heilmikilli gagnrýni enda ekki vandlega unnar og því vil ég nota tækifærið til að spyrja hæstv. ráðherra hvað líði nýjum eða gömlum tillögum um styttingu náms til stúdentsprófs. Það væri gott að fá þær fram, enda um stórpólitískt mál að ræða og nauðsynlegt ef af þeirri styttingu verður að hún verði þá framkvæmd með sem farsælustum og bestum hætti.

Á dögunum fékk ég svar frá menntmrh. um brottfall sundurgreint eftir skólum. Síðan kom fram að þær forsendur sem lágu að baki svarinu voru kannski ekki alveg réttar, það vantaði inn í samningsbundna starfsnema og fjarnámsnema o.fl., en þrátt fyrir það kemur fram í svarinu að brottfallið er hátt og segja má að um séríslenskt stórvandamál sé að ræða, enda er brottfallið ekkert viðlíka í öðrum löndum og því brýnt að gripið sé til sértækra aðgerða til að vinna gegn því og fagna ég því að rætt sé um það hér.