Brottfall nemenda úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:44:56 (7692)

2004-05-05 15:44:56# 130. lþ. 110.7 fundur 777. mál: #A brottfall nemenda úr framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Mörður Árnason:

Forseti. Það er sjálfsagt að gera fyrirvara um sérstakar íslenskar aðstæður þegar kemur að því að bera brottfallstölurnar saman á milli landa. Það er hins vegar fáránlegt að skýla sér á bak við þá fyrirvara eins og hæstv. menntmrh. virtist gera í svari sínu. Til dæmis er í rannsókn Jóns Torfa Jónassonar og Kristjönu Stellu Blöndal, sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, einmitt gengið út frá því að sá munur sé að vissu leyti leiðréttur með því að fylgst er með árganginum upp á við og ekki bara tekinn sá aldur sem nákvæmlega miðast við framhaldsskóla.

Það lýsir ástandinu ágætlega að í löngu svari hæstv. menntmrh. eru hin raunverulegu svör við spurningum fyrirspyrjanda í fyrsta lagi hvort ráðherra hyggist ætla að beita sér fyrir aðgerðum, nei, og í öðru lagi hvort reynt hafi verið að reikna út kostnað samfélagsins og það er líka nei. Ráðherra hefur engar áhyggjur af málinu. Ráðherra telur að hinar séríslensku aðstæður og fögur orð í plöggum frá 1996 og 1998 dugi í einhverjum mesta menntavanda Íslendinga.