Brottfall nemenda úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:46:15 (7693)

2004-05-05 15:46:15# 130. lþ. 110.7 fundur 777. mál: #A brottfall nemenda úr framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Enn á ný ræðum við hið stóra mál, um brottfall í framhaldsskólum. Full þörf er á þeirri umræðu. Ég vildi aðeins nota mínútuna sem ég hef til að vekja athygli á því sem hv. fyrirspyrjandi benti á. Ég held að það sé kannski það stærsta sem hægt væri að gera í að skoða málið heildstætt.

Þegar við berum skólakerfi okkar saman við kerfi annars staðar sést hversu náms- og starfsráðgjöf er í raun lítil hjá okkur miðað við aðrar þjóðir. Ég held hins vegar að það dugi ekki að horfa á framhaldsskólana í því sambandi heldur þurfum við að horfa mjög sterkt til grunnskólans. Það ræðst mikið undir lok grunnskólans hvaða framhaldsnám nemendur velja sér. Það er auðvitað mikilvægt að nemendur, þegar þeir hefja framhaldsnám, viti hvert þeir stefna. Við það þurfa þeir oft aðstoð og ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að skoða hvort ekki sé ástæða til þess að stórefla, eins og hv. fyrirspyrjandi orðaði það, náms- og starfsráðgjöf í skólum landsins.