Brottfall nemenda úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:52:34 (7697)

2004-05-05 15:52:34# 130. lþ. 110.7 fundur 777. mál: #A brottfall nemenda úr framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Ég skal taka boltann á lofti, grípa hann og halda áfram að rekja hann að því marki að minnka brottfallið. Það er m.a. hægt með því að taka þetta inn í endurskoðun á grunnskólalöggjöfinni sem nú þegar er hafin. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að við skoðum a.m.k. hverju það mundi skila að efla starfs- og námsráðgjöf, sér í lagi þegar við lítum til reynslu annarra þjóða þótt, eins og ég gat um áðan, erfitt sé að bera okkur saman við aðrar þjóðir varðandi brottfallið. Ég rakti það áðan og vona að menn hafi hlustað.

Varðandi styttingu námstímans þá met ég umræðuna þannig að menn séu frekar hlynntir því að stytta námstíma til stúdentsprófs. Það er ekki sama hvernig það er gert. Þegar ég kom í ráðuneytið lagði ég mikla áherslu á að líta ekki eingöngu til framhaldsskólans eins og sér heldur skoðuðum við allt skólastigið, þ.e. leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og upp í háskóla, með hliðsjón af styttingunni.

Varðandi þá þýðingarmiklu vinnu sem við sinnum í ráðuneytinu í góðu samstarfi við þá aðila sem að því máli koma vil ég geta þess, frú forseti, að ég vænti þess að fá niðurstöðu úr þeim þremur starfshópum sem eru í gangi til að skoða hvort stytta beri námstíma til stúdentsprófs. Ég fæ niðurstöðu frá þeim starfshópum undir lok þessa mánaðar og geri ráð fyrir, frú forseti, að við komum til með að takast á við þetta umfangsmikla verkefni hér í þingsal á næsta hausti.