Forvarnastarf í áfengismálum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 16:03:44 (7701)

2004-05-05 16:03:44# 130. lþ. 110.10 fundur 684. mál: #A forvarnastarf í áfengismálum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Frú forseti. Það er ljóst að áfengisauglýsingabannið heldur ekki á Íslandi og sú auglýsing sem hv. fyrirspyrjandi sýndi hér sýnir það gleggra en nokkuð annað. Það þýðir ekki að rita með tveggja eða þriggja punkta letri í hægra horn niðri 0,0%. Það er verið að auglýsa áfengi, hæstv. forseti, og það hlýtur að vera löggjafans að kveða skýrt upp úr um það hvort það sé leyfilegt að auglýsa áfengi á Íslandi eða ekki. Ef á að leyfa það er hægt að setja um það mjög strangar reglur eins og gert er víða í nágrannalöndum okkar og ef ekki á að leyfa það, sem á víst að vera reglan í dag, þarf að framfylgja því banni, frú forseti, þannig að þeir sem brjóta lögin finni fyrir því í fjársektum og öðru.