Forvarnastarf í áfengismálum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 16:05:56 (7703)

2004-05-05 16:05:56# 130. lþ. 110.10 fundur 684. mál: #A forvarnastarf í áfengismálum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir tiltölulega glögg svör og fagna liðsinni hans í málinu. Það að hafa lög sem ekki er farið eftir og sem stjórnvöldum er sama hvort farið er eftir eða ekki er verra en að hafa engin lög. Í Frakklandi á síðasta áratug, Frakkland sem við höfum álitið mikið áfengisland og stundum horft til ýmist hneykslunar- eða löngunaraugum, gengu í gildi lög á síðasta áratug, ég held að það hafi verið 1992. Þau voru um áfengisauglýsingar. Þær eru leyfðar þar en ekki í sjónvarpi. Þær eru leyfðar á öðrum auglýsingastöðum, í dagblöðum og á skiltum, sem við höfum hér líka, á Háaleitisbrautinni er komið skilti með bjórglösum líka. Ég ók þar fram hjá í morgun en ég kom ekki auga á léttölsáletrunina en væntanlega er hún skrifuð með stórum stöfum einhvers staðar. Á skiltum eða annars staðar eru leyfðar áfengisauglýsingar í Frakklandi en þær þurfa að vera þannig að það má vera mynd af framleiðsluvörunni en ekkert annað má fylgja. Það má auglýsa hvaðan vínið er. Þetta er mikið til rauðvín og þar skiptir framleiðslustaðurinn máli o.s.frv. en það má ekkert fylgja meira. Það má ekki sýna unglinga í partíi, það má ekki sýna fólk í kynferðisatlotum eða einhverju því um líku sem hér er notað --- til hvers? Jú, það er vegna þess að þegar þetta er sett upp hér er ekki verið að reyna að ná til fullorðins fólks, allra síst, það er verið að reyna að ná til unga fólksins. Það er verið að reyna að laða unga fólkið inn í þennan heim með því að telja því trú um að áfengisdrykkjunni fylgi sjálfkrafa tiltekin gæði og sæla, áhrifin og vinsældirnar með félögunum og með makanum en fólk er ekki sýnt daginn eftir eða um miðja nótt o.s.frv.

Ég vil segja við heilbrrh. að í þeirri skýrslu sem hann nefndi, frá vinnuhópi ríkislögreglustjóra frá 2001, er efast um að lögin haldi og það er greinilegt að það þarf að fara fram vinna til þess að breyta lögunum, annaðhvort þannig að (Forseti hringir.) það sé ótvírætt að þetta sé bannað eða þá að slaka á og skapa einhver mörk eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björgvin G. Sigurðsson nefndu áðan.