Þjónusta sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:09:46 (7709)

2004-05-05 18:09:46# 130. lþ. 110.12 fundur 940. mál: #A þjónusta sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JBjart
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:09]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. heilbrrh. lýtur að því hvernig standa megi að því að auka þjónustu sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins. Hv. þingmenn í heilbr.- og trn. hafa lengi haft áhuga á því að gripið verði til einhverra ráðstafana þannig að hægt sé að auka aðgengi almennings að þjónustu sálfræðinga.

Nefndin réðst í það að mig minnir fyrir 2--3 árum að breyta almannatryggingalögunum þannig að samninganefnd ríkisins sem semur við sérfræðilækna væri gert heimilt að semja líka við aðrar heilbrigðisstéttir og það voru ekki síst sálfræðingar sem nefndarmenn höfðu þá í huga af því að því hafði oft verið borið við að það væri ekki hægt vegna þess að lagaheimild skorti.

Hv. þingmenn í heilbr.- og trn. á síðasta kjörtímabili voru líka nokkuð sammála um kosti þess fyrir allan almenning að auka þjónustu heilsugæslunnar, að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar þannig að ekki væri einungis um það að ræða eins og gjarnan er að það væru læknar og hjúkrunarfræðingar sem veittu heilbrigðisþjónustu heldur jafnframt aðrar heilbrigðisstéttir eins og sums staðar er reyndar, það eru iðjuþjálfar, félagsráðgjafar og einhvers staðar eru sálfræðingar. Þetta eru að mestu leyti ákveðin tilraunaverkefni og eftir því sem ég best veit, herra forseti, hafa þær tilraunir, þar sem þær hafa verið gerðar, gefist ákaflega vel. Málið snýst á vissan hátt um það að þjónusta sálfræðinga, þeirra sem starfa utan heilsugæslunnar, sem er lunginn af þeim, kostar fólk mun meira en t.d. að sækja til geðlæknis eða sækja til heilsugæslunnar eftir heilbrigðisþjónustu vegna þess að Heilbrigðisstofnun ríkisins tekur ekki þátt í þeim kostnaði. Og að mínu mati og margra annarra sem hafa stutt það að aðgangurinn að slíkri þjónustu væri bættur er þetta spurning um valfrelsi, að fólk geti valið sér þjónustu og að við höfum svolítið fjölbreyttari sýn á andlegt heilbrigði og það geti jafnframt orðið til þess að lækka lyfjakostnað en eins og við vitum hefur m.a. kostnaður ríkisins og sjúklinga vegna geðlyfja hækkað mikið á undanförnum árum á sama tíma og rannsóknir hafa sýnt að hluti slíkra lyfja endar bara uppi í skáp eða uppi á hillu.

Spurning mín til hæstv. heilbrrh. er um það hvort einhverjar áætlanir séu um að auka þjónustu sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins og gera hana aðgengilegri, með samningum við sjálfstætt starfandi sálfræðinga og greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins og/eða með fjölgun stöðugilda sálfræðinga innan heilsugæslunnar.