Þjónusta sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:13:02 (7710)

2004-05-05 18:13:02# 130. lþ. 110.12 fundur 940. mál: #A þjónusta sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Spurst er fyrir um áætlanir mínar um að auka þjónustu sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins og gera hana aðgengilegri, með samningum við sjálfstætt starfandi sálfræðinga og greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins og/eða fjölgun stöðugilda sálfræðinga innan heilsugæslunnar.

Heildarstefnumótun í þessum málaflokki er nauðsynleg og að undanförnu hefur töluvert stefnumótunarstarf farið fram. Sálfræðiþjónusta við börn og ungmenni er mikilvægur þáttur í störfum sálfræðinga og að mínu mati sá þáttur sem sérstaklega þarf að styðja við. Á þeirri forsendu ákvað ég á síðasta ári að útnefna verkefnisstjóra á vegum ráðuneytisins til að efla þjónustuna í þessum málaflokki. Þá fór ég þess einnig á leit við ráðuneyti félags- og menntamála að það styddi við endurskoðun málaflokksins. Þann 1. febrúar sl. hóf verkefnisstjórinn, Kristján Magnússon sálfræðingur, störf í ráðuneytinu. Honum er ætlað að skila tillögu að heildaráætlun um aðgerðir í ágúst á þessu ári.

Það hefur verið stefna mín að leggja mesta áherslu á grunnþjónustu sálfræðinga og þá sérstaklega þjónustu fyrir börn og unglinga og að sú þjónusta starfi innan heilsugæslunnar. Nauðsynlegt er að fólk eigi kost á aðgengi að sálfræðingum innan heilsugæslunnar og komið hefur verið á fót barnateymi á heilsugæslustöðinni á Akranesi og fé hefur verið veitt til sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum á Suðurlandi og gert hefur verið átak í geðheilbrigðismálum hjá heilsugæslunni í Reykjavík og Mosfellsbæ. Á þessu ári er verið að vinna að þessu markmiði með tilraunaverkefni á vegum heilsugæslunnar í Reykjavík. Komið hefur verið á fót samstarfsteymi sálfræðings, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa innan heilsugæslunnar og það er von mín að sú tilraun gefist vel og geti þessi starfsemi orðið okkur leiðarljós að bættri sálfræðiþjónustu.

Ég hef lýst yfir vilja mínum til að gera þjónustu sálfræðinga ódýrari fyrir þá sem þurfa þeirrar þjónustu með en legg áherslu á það eins og hér hefur komið fram að brýnasta verkefnið að mínu mati er að bæta grunnþjónustuna með sérstakri áherslu á þjónustu við börn og unglinga. Nauðsynlegt er að vinna að heildarstefnumótun í þessum málaflokki og eins og áður sagði ákvað ég á síðasta ári að útnefna verkefnisstjóra á vegum ráðuneytisins í það mál. Verkefnisstjóranum er ætlað að skila af sér tillögu að heildaráætlun um aðgerðir í ágúst á þessu ári. Það er von mín að starf hans og þeirra fjölmörgu aðila innan og utan ráðuneytisins sem hann á í samskiptum við vegna vinnu sinnar eigi eftir að skila niðurstöðum sem skýra betur þær leiðir sem rétt er að fara varðandi samninga um þjónustu sálfræðinga og hægt sé að taka ákvarðanir í framhaldi af því.