Þjónusta sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:20:06 (7713)

2004-05-05 18:20:06# 130. lþ. 110.12 fundur 940. mál: #A þjónusta sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég tek undir að það er áríðandi að samhæfa krafta í þessum málaflokki milli ráðuneyta, menntmrn., félmrn. og sveitarfélaga sem fara m.a. með rekstur grunnskólans. Það er afar áríðandi að sálfræðiþjónusta í skólum nýtist til að greina vanda barna sem fyrst. Það er grundvallaratriði og verkefnisstjórinn sem við réðum hafði það sem eitt af grundvallaatriðum í erindisbréfi, að ræða við þessa aðila og finna samstarfsleiðir sem geri þjónustuna markvissari og öflugri.

Ég legg á það mikla áherslu að efla þjónustuna innan heilsugæslunnar. Heilsugæslan er nærþjónusta. Að henni á að vera gott aðgengi og þröskuldurinn til þess að sækja þjónustuna lágur. Hitt væri auðvitað æskilegt markmið að geta samið um greiðsluþátttöku við sálfræðinga almennt en það snýst um fjármuni. Maður getur ekki horft fram hjá því. Ég hef ekki á þessari stundu fjármuni til að taka upp þá samninga. En þetta er eitt af þeim verkefnum sem er nauðsyn í heilbrigðisþjónustunni. Við verðum að fara þær leiðir sem eru færar og skynsamlegar hverju sinn með tilliti til þess sem við höfum úr að spila af fjármunum.