Ljósmengun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:28:09 (7716)

2004-05-05 18:28:09# 130. lþ. 110.13 fundur 682. mál: #A ljósmengun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Hæstv. umhvrh., fráfarandi, virðist ekki hafa neinn áhuga á þessum málum og hyggst ekki setja í gang neins konar rannsókn eða athugun á því sem hér er um að ræða. Hún virðist ekki einu sinni kannast við að þetta sé nokkurt vandamál.

Nú vill svo til að í stjórnkerfinu, þótt ekki sé um að ræða stjórnsýslustig hæstv. umhvrh., er um þetta fjallað, í a.m.k. tveimur heilbrigðisreglugerðum sveitarfélaga, bæði í Borgarnesi og í Hveragerði, sem er ekki tilviljun. Í einni af þeim greinum sem ég nefndi áðan, grein Birgis Þórðarsonar, sem starfar við heilbrigðiseftirlit á Suðurlandi, sem er heldur ekki tilviljun því þar er margt gróðurhúsið, eru nefnd tíu ráð. Þegar yfir þau er farið kemur í ljós að ekki þarf stórkostlegar byltingar eða mikil fjárútlát til að forða a.m.k. einhverju af þeim vanda sem hér er um að ræða. Það felst aðallega í því að í reglugerðum sé kveðið á um að ljós séu skermuð að ofan og ljósum ekki að óþörfu beint upp í himinhvolfið. Ýmislegt af því tagi hjálpar og jafnframt fræðsla til almennings og verktaka um ljósmengun.

Af því að íslensk stjórnvöld skilja oft ekki annað en beinharða peninga má nefna að töluvert er um ferðamennsku hingað af hálfu Japana. Þeir eru að vísu ekki aðeins að skoða stjörnuhimininn. Þeir eru að leita eftir norðurljósum, reyndar ekki þeim sem hæstv. ráðherra ætlar að búta sundur, heldur hinum raunverulegu norðurljósum. Ef við hyggjum á að hafa hag af þeim gestakomum í framtíðinni þá verðum við að passa upp á að norðurljósin séu hér til.

Því má svo bæta við að kannanir hafa sýnt að þetta er víst ekki bara náttúruskoðun hjá Japönum heldur er sú trú þar í landi að börn getin undir norðurljósum muni búa við sérstaklega gæfusama framtíð. Þetta getur orðið hagur okkar Íslendinga ef rétt er á haldið.