Staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:37:51 (7720)

2004-05-05 18:37:51# 130. lþ. 110.14 fundur 760. mál: #A staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég vona að ég hafi skilið hæstv. umhvrh. rétt, þ.e. þannig að aðalskipulag Reykjavíkurborgar, hvað lýtur að Vatnsmýrinni, sé staðfest, enda hafi sú nefnd sem skipuð var ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um að gera neinar tillögur um breytingar á því skipulagi sem þar gildir. Ég tel ákaflega mikilvægt að þessi skilningur verði staðfestur af ráðherranum þannig að af séu tekin öll tvímæli.

Stjórnskipun okkar byggir á þeirri meginreglu að sveitarfélögin séu sjálfstæð í störfum sínum og fari með skipulagsvaldið. Reykjavíkurborg hefur með þessum hætti hagað skipulagi sínu og ekki aðeins það heldur hefur Reykjavíkurborg náð saman við öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í svæðisskipulagi þar sem gert er ráð fyrir þessum breytingum á nýtingu Vatnsmýrarinnar.

Þótt að við hljótum að vonast eftir farsælum viðræðum samgrn. og Reykjavíkurborgar í þessu efni þá þarf að vera alveg á hreinu af hálfu hæstv. umhvrh. að skipulagið er Reykjavíkurborgar og þarna hafi verið skipulögð byggð af hennar hálfu.