Hreinsun skolps

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:46:26 (7724)

2004-05-05 18:46:26# 130. lþ. 110.15 fundur 804. mál: #A hreinsun skolps# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:46]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er spurt: Hvers vegna eru gerðar sömu kröfur samkvæmt reglugerð nr. 798/1999 um hlutfall lífrænna efna sem hreinsa á úr skolpi annars vegar frá Reykjavík, þar sem mengun er mikil, og hins vegar frá minni sveitarfélögum, t.d. Skagaströnd, þar sem íbúar eru fáir og mengun er lítil?

Því er til að svara að ekki eru gerðar sömu kröfur til hreinsunar óháð viðtaka og þess magns frárennslis sem um er að ræða, eins og gefið er í skyn í spurningu hv. þingmanns. Það eru einmitt ekki gerðar sömu kröfur. Kröfur um hreinsun skolps eru skilgreindar annars vegar út frá hæfni viðtaka til að taka við skolpi og hins vegar umfangi og magni skolps sem rennur frá þéttbýlissvæðum.

Í reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skolp, eru skilgreindar þrjár gerðir skolphreinsunar frá þéttbýli, tveggja þrepa hreinsun, eins þreps hreinsun og viðunandi hreinsun. Tveggja þrepa hreinsun er meginreglan samkvæmt reglugerðinni og skal beita henni við losun skolps frá þéttbýli nema ef heimiluð er eins þreps hreinsun eða áðurnefnd viðunandi hreinsun. Í tveggja þrepa hreinsun er fyrst forhreinsun með botnfellingu eða síun og síðan frekari hreinsun skolps sem oftast felur í sér líffræðilegar aðferðir, þ.e. örverur eru notaðar til að eyða lífrænum efnum í skolpinu. Í þessum tilvikum er oftast einnig eftirhreinsun með botnfellingu. Í sérstökum tilfellum getur verið farið fram á frekari hreinsun en tveggja þrepa sem getur falið í sér enn frekari lækkun næringarsalta eða annarra efna eða eyðingu saurgerla.

Eins þreps hreinsun er heimilt að nota annars vegar á strandsvæðum sem skilgreind hafa verið sem síður viðkvæm þegar losun er á bilinu 10--150 þús. persónueiningar og hins vegar í ármynni ef losun telst á bilinu 2--10 þús. persónueiningar. Einnig er möguleiki að beita eins þreps hreinsun á skolp með meira en 150 þús. persónueiningar ef það er losað í viðtaka sem flokkast sem síður viðkvæmt svæði og að undangenginni rannsókn sem sýnir fram á að þróaðri hreinsiaðferðir hafi engin umhverfisbætandi áhrif.

Við eins þreps hreinsun skolps eru notaðar aflfræðilegar og/eða efnafræðilegar aðferðir þar sem magn svifagna er lækkað um tiltekinn hundraðshluta, t.d. með botnfellingu eða síun. Aðferðirnar geta verið sambærilegar fyrra þrepinu í tveggja þrepa hreinsun. Í viðunandi hreinsun fer hreinsun skolps fram með viðurkenndum hreinsibúnaði svo ásættanlegt sé fyrir viðtakann. Ekki eru notuð losunarmörk en uppfylla þarf skilgreind gæðamarkmið. Þessa gerð hreinsunar er einungis heimilt að nota fyrir þéttbýli þar sem losun er minni en 2 þús. persónueiningar í ár og vötn og ármynni og minna en 10 þús. persónueiningar við losun í strandsjó.

Í dreifbýli og þar sem ekki er sameiginleg fráveita er gert ráð fyrir rotþró og siturlögn eða öðrum sambærilegum hreinsibúnaði. Af framansögðu er ljóst að kröfur samkvæmt reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skolp, eru flokkaskiptar eftir mælanlegum gildum og í samræmi við áhrif fráveituvatns á umhverfið og viðkomandi viðtaka.

Að lokum má benda á að flokkun viðtaka og val á hreinsunaraðferð er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga og í samræmi við aðferðafræði og losunarmörk sem eru sett fram í framangreindri reglugerð. Reglugerðin er byggð á tilskipun 91/171/EBE um hreinsun skolps frá þéttbýli en ákvæði hennar eru sveigjanleg og eru hreinsunarkröfur byggðar á viðtaka og fjölda persónueininga, með öðrum orðum á umhverfislegum markmiðum.

Í sveitarfélaginu Skagaströnd eru samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar minna en 10 þús. persónueiningar og svæðið er skilgreint sem síður viðkvæmt. Í Reykjavík eru yfir 150 þús. persónueiningar og svæðið er einnig skilgreint sem síður viðkvæmur viðtaki. Um þessi tvö svæði gilda því ekki sömu kröfur og reglur samkvæmt lagaumhverfi okkar. Sveitarfélagið Skagaströnd mun taka ákvörðun um gæðamörk sem heilbrigðisnefnd svæðisins metur einnig og jafnframt veitir Umhverfisstofnun umsögn í slíkum málum þannig að þar taka heimamenn ákvörðun um gæðamörk miðað við lagaumhverfi okkar.