Veðurathugunarstöðvar

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:04:54 (7731)

2004-05-05 19:04:54# 130. lþ. 110.16 fundur 844. mál: #A veðurathugunarstöðvar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:04]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessar upplýsingar. Ég vil í fyrsta lagi árétta að mannaðar veðurstöðvar gefa til kynna hvernig hið raunverulega veður er á viðkomandi stað, segir til um skyggni, sólfar, hvort það sé skafrenningur, snjókoma eða annað því um líkt á hverjum stað. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þetta sé vitað.

Það kom fram hjá ráðherranum að ætlunin sé að leggja niður mannaða stöðu á Reykhólum og önnur hefur nýverið verið lögð niður, veit ég, á Blönduósi. Ég tel að þetta skipti máli, bæði með tilliti til atvinnu og líka upplýsinga fyrir alla umferð, og enn fremur fyrir búsetu og þar af leiðandi atvinnulíf á þessum stöðum. Ég fer fram á það að ráðherra endurskoði þetta ferli sem þarna er komið í gang. Það er gott og blessað að vera með sjálfvirkar veðurstöðvar og má gjarnan fjölga þeim en það er einnig mikilvægt að hafa hina mannlegu hönd sem getur þá gert nánari grein fyrir því hvernig hið raunverulega veður er.

Síðast vil ég koma aftur að veðurathugunarstöðinni á Hveravöllum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ráðherrann hafi ekki fengið mótmæli og áskoranir frá starfsmönnum Veðurstofunnar, frá starfsmönnum á mælingadeild Veðurstofu Íslands og frá fjölmörgum aðilum sem telja, bæði af veðurfarslegum ástæðum og öryggisástæðum á landi og í lofti, brýnt að halda starfseminni áfram. Til þess erum við að reka veðurathugunarstöðvar að þær eru einhver mikilvægasti hlekkurinn í öryggiskerfi þjóðarinnar. Þar er hvorki Veðurstofan undanskilin né hæstv. ráðherra þannig að ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir endurskoðun á þeirri fyrirætlan að loka veðurathugunarstöðinni á Hveravöllum. Ég skora á hana afdráttarlaust að endurskoða þá ákvörðun.