Staða og afkoma barnafjölskyldna

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:18:14 (7736)

2004-05-05 19:18:14# 130. lþ. 110.17 fundur 692. mál: #A staða og afkoma barnafjölskyldna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:18]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. þessi svör. Ég geri mér alveg grein fyrir því að fróðlegar niðurstöður hafi komið frá sveitarfélögunum vegna þess að stærstu skref sem hafa verið tekin í fjölskyldumálum og varða aðbúnað fjölskyldnanna í landinu eru skref sem hafa verið tekin í sveitarfélögunum, aðgerðir sem sveitarfélögin hafa gripið til. Auðvitað hefur maður verið að vonast til þess að ríkið færi að móta sér í ríkari mæli fjölskyldustefnu. Á því hefur verið þörf. Af því að hér var fæðingarorlofið nefnt hefur verið þverpólitísk samstaða í mörg ár um að auka það og hefði svo sem ekki þurft að gera neina sérstaka samþykkt um fjölskyldumál á Alþingi til að ná því fram.

Svo virðist sem fjölskylduráðið fyrst og fremst hafi leitast við að framfylgja ályktun Alþingis. Minna hefur farið fyrir aðgerðum hjá ráðuneytunum. Mér finnst auðvitað mikilvægt að það var óskað tilnefninga í samstarfshóp en mér finnst minna um hvað út úr því hefur komið. Ég tek eftir því að ekki hefur verið leitað til ráðsins vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir sem var einn af þeim stóru þáttum sem fram komu í ályktuninni um að ríkisvaldið nýtti sér þetta tæki til að átta sig á hvernig það mundi hitta ólíka hópa fyrir þegar verið væri að gera grundvallarbreytingar.

Ég tek líka eftir því í svörunum sem ég hef fengið að ráðið telur að bæði löggjafarvaldið og framkvæmdarvald ríkisstjórnarinnar skorti upplýsingar og almenna vitneskju um hvaða áhrif ýmsar aðgerðir hafa á hag fjölskyldnanna. Svo tek ég eftir því, virðulegi forseti, að nú er komin á borð okkar skýrsla forsrh. um fátækt á Íslandi. Bara með því að glugga í hana á tveimur mínútum sé ég að það er gífurlegur munur, virðulegi forseti, á aðstöðu fjölskylduhópanna í þessu landi.