Framlög til eignarhaldsfélaga

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:39:15 (7744)

2004-05-05 19:39:15# 130. lþ. 110.20 fundur 956. mál: #A framlög til eignarhaldsfélaga# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þann 8. maí 2003 varð til samkomulag á milli heilbrrh. og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs, Eignarhaldsfélags Suðurnesja hf. og Bláa lónsins hf. um að eignarhaldsfélagið fyrir tilstyrk ríkissjóðs tæki þátt í uppbyggingu nýrrar meðferðarstöðvar Bláa lónsins sem reist verður á athafnasvæði félagsins við Svartsengi. Markmið byggingar nýrrar meðferðarstöðvar var að bæta þjónustu við íslenska psoriasis-sjúklinga og styrkja alþjóðlega meðferð og rannsóknastarfsemi til að fjölga enn frekar meðferðardvölum erlendra psoriasis-sjúklinga við Bláa lónið. Eignarhaldsfélagið mun gerast einn af eignaraðilum fasteignarinnar sem reist verður til að starfrækja meðferðarstöðina. Félagið leggur í því skyni fram 200 millj. kr. og ríkissjóður 150 millj. kr. til viðbótar sem komi til greiðslu á árunum 2003 og 2004, að fenginni heimild Alþingis um að ríkissjóður leggi fram framangreint hlutafé.

Iðnn. sendi fjmrn. fyrirspurn vegna þessa máls síðasta haust. Í svarbréfi fjmrn., dags. 7. nóvember 2003, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Eignarhaldsfélagið mun gerast einn af eignaraðilum fasteignarinnar en á þessu stigi er ekki að fullu ákveðið hverjir verða meðeigendur þess að byggingunni. Áætlaður byggingarkostnaður meðferðarstöðvarinnar er 400 milljónir króna. Að loknum byggingartíma mun Bláa lónið hf. taka fasteignina á leigu gegn eðlilegu leigugjaldi. Ekki er talið að þetta samkomulag hafi áhrif á önnur eignarhaldsfélög og ekki eru uppi sérstök áform um ný framlög til þeirra.``

Við þetta svar fjmrn. til iðnn. hef ég í sjálfu sér engu að bæta.