Brunatryggingar

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:51:17 (7749)

2004-05-05 19:51:17# 130. lþ. 110.22 fundur 953. mál: #A brunatryggingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:51]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Frú forseti. Þetta er ákaflega þýðingarmikið mál fyrir fók sem býr á landsvæðum þar sem markaðsverð eigna er lægra en byggingarverð eða brunabótamat eins og það er skilgreint í dag. Munur sem þarna er á getur verið býsna mikill eins og kom fram í því dæmi sem ég nefndi. Hins vegar er húseigendum gert skylt að brunatryggja húseignir sínar og þeir ráða ekki verðmætinu sem ákveðið er á húseigninni heldur er það í höndum Fasteignamats ríkisins að ákvarða það eftir þeim ákvæðum laganna sem um það fjalla.

Í raun og veru er spurningin sem húseigendur á þessum svæðum landsins velta fyrir sér sú hvort þeir geti treyst því að matið sem er á eignum þeirra, brunabótamatið, sé grundvöllur bóta þegar á tryggingarnar reynir. Allmikil ástæða er til að það leiki ekki vafi á þessu. Húseigendur greiða iðgjald miðað við matið og menn hljóta að álykta sem svo að það sé þá jafnframt grundvöllur bótanna þegar til þess kemur. Viðbrögð tryggingafélags í því dæmi sem ég nefndi benda til annars. Því er ákaflega þýðingarmikið að fá skýr svör ráðherra sem fer með framkvæmd laganna og túlkun á þeim hvert mat ráðherrans sé á þessum ákvæðum laganna og ég skildi svar hæstv. ráðherra svo að í raun væri svarið við spurningunni já.