Hringamyndun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:54:21 (7750)

2004-05-05 19:54:21# 130. lþ. 110.23 fundur 955. mál: #A hringamyndun# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:54]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Víða erlendis er það eitt ekki látið duga að hafa almenna samkeppnislöggjöf heldur líka sett sérstök ákvæði eða jafnvel sérstök löggjöf um hringamyndun þar sem tekið er á þeim tilvikum þegar stór og öflug fyrirtæki verða ráðandi eða mjög sterk á mörgum sviðum atvinnulífsins í senn. Hér á landi höfum við séð þá þróun á undanförnum árum eða kannski má segja allra síðustu árum. Fyrst má nefna Bónus og Baug og þau fyrirtæki sem eru afar sterk í smásöluverslun á matvörusviði og hafa síðan haslað sér völl á öðrum sviðum atvinnulífsins.

Annað nærtækt dæmi má nefna úr fjármálageiranum þar sem Landsbanki Íslands hefur t.d. orðið mjög umsvifamikill í fjárfestingum í öðrum sviðum atvinnulífsins svo sem á flutningasviði og öðru og fleiri dæmi má nefna frá öðrum fyrirtækjum á fjármálasviði eins og öðrum bönkum. Það leiðir auðvitað hugann að því hvort ekki sé eðlilegt að fara að huga að því að leggja til á Alþingi löggjöf sem tekur á þessari stöðu og kveður upp úr um það hvernig menn vilja bregðast við til að tryggja hagsmuni neytenda, sem er alltaf markmiðið með löggjöf af þessu tagi, þannig að sem mestar líkur séu á því að neytendur og viðskiptavinir fái sína vöru og þjónustu á sem lægstu verði með því að tryggja samkeppni.

Ég vil geta þess, herra forseti, að ég bar fram tillögu um málið á flokksþingi Famsfl. sem var samþykkt, um að sett verði löggjöf um hringamyndun þar sem m.a. yrði athugað hvort rétt væri að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum. Ég tel að slíkt komi til greina þó að ekki sé rétt að kveða upp úr með það í einstökum tilvikum fyrr en menn hafa ákveðið þær almennu leikreglur sem menn vilja hafa í slíkri löggjöf.

Nýlegt frv., svonefnt fjölmiðlafrv., er auðvitað að hluta til angi af þessu sjónarmiði því það tengir saman starfsemi á fjölmiðlasviði við starfsemi fyrirtækis á öðrum sviðum atvinnulífsins og leggur bann við því að fyrirtæki sem er markaðsráðandi á einu sviði geti starfað á fjölmiðlasviði. Það er auðvitað angi af löggjöf af þessu tagi þó að markmiðið sé reyndar annað. Því hef ég, með leyfi forseta, lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til viðskrh.:

Hvað líður undirbúningi að löggjöf um hringamyndun?