Skattgreiðslur vegna virkjunarframkvæmda

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 20:09:51 (7755)

2004-05-05 20:09:51# 130. lþ. 110.24 fundur 863. mál: #A skattgreiðslur vegna virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[20:09]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Það er þó virðingavert við hæstv. fjmrh. að hann viðurkennir núna að uppi sé ágreiningur sem eigi að fara í eitthvert ferli, og þá væntanlega í málaferli. Hins vegar er ráðherrann jafnviss í sinni sök.

Þá veltir maður því fyrir sér hvort fyrirtækið hafi ekki verið upplýst rækilega um íslensk skattalög áður en það sendi inn tilboð. Átti hæstv. fjmrh. ekki aðild að því máli að upplýsa fyrirtækið um íslensk skattalög? Og hvernig verður samkeppnisstaða þessara fyrirtækja, íslenskra og erlendra fyrirtækja, ef þarna verður mismunur á?

Ráðherrann minntist á að hægt væri að áætla skatta. Ég vil spyrja: Hve mikið hefur nú þegar samkvæmt því verið áætlað af sköttum á erlenda starfsmenn hér? Þó að þeir hafi ekki talið fram ber skylda til að áætla á þá, og hvað er búið að áætla af gjöldum?

Frú forseti. Hér er gríðarlegt fordæmismál á ferðinni og því finnst mér ráðherra skauta allt of létt í gegnum það í þingsölum.