Skattgreiðslur vegna virkjunarframkvæmda

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 20:11:21 (7756)

2004-05-05 20:11:21# 130. lþ. 110.24 fundur 863. mál: #A skattgreiðslur vegna virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[20:11]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég held að hæstv. fjmrh. sé vel ljóst að þegar ég talaði um skattalega framkvæmd var ég að tala um framkvæmd þessara mála í heild sinni, eða skattalega meðferð. Hæstv. ráðherra velur að túlka það afar þröngt, að það snúist bara um skattskylduna sjálfa. Svo segir hann að verið sé að snúa út úr orðum hans þegar maður gagnrýnir það að af svari hans hafi ekki orðið annað ráðið en að þetta væri allt í himnalagi, (Gripið fram í.) gengi allt mjög vel, engin vandamál.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé kominn það að landi í þessum efnum að hann viðurkenni vissa erfiðleika. Innilega til hamingju, hæstv. fjmrh., með þetta raunsæi sem þarna er á skollið. Það er mikilvæg viðurkenning og það lengsta sem hæstv. fjmrh. hefur komist hingað til. Auðvitað þarf samt að gera þessi mál upp og það er ekki eins og þetta sé alveg nýtilkomið. Hvar borguðu starfsmenn NNC skatta, þeir sem voru komnir til starfa á árinu 2002? Norður-Hérað hefur ekki séð neitt af þeim enn þá. Hvert renna skattar þeirra 500 erlendu starfsmanna eða svo sem talið er að séu við störf við Kárahnjúka en ekki eru skráðir íbúar sveitarfélaganna, Norður-Héraðs eða Fljótsdalshrepps? Hvert renna skattar þeirra? Hvert rennur útsvarið, ef eitthvert útsvar er tekið af þeim, ef þetta er gert upp daglega eins og hæstv. ráðherra segir? Það er afar dularfullt að það skuli vera allt að hálfu þúsundi manna í landinu og engin leið að upplýsa hvert útsvarið þeirra rennur. Hvert greiddu þeir erlendu farandverkamenn skatta sem farnir eru úr landi? Hvert rann útsvar þeirra og skattur?

Hæstv. ráðherra gerir auðvitað réttast í því að gera mönnum hreinskilnislega grein fyrir því hvernig þessi mál hafa gengið fyrir sig og viðurkenna þá að þarna hafi verið við erfiðleika að etja sem menn ætli sér hins vegar að taka á. Ég efast ekkert um að íslensk skattyfirvöld vilji reyna að standa sig og láta menn fylgja reglum. Það er misskilningur að þau verði ekki að horfast í augu við raunveruleikann og viðurkenna hann opinberlega, þar á meðal og ekki síst á Alþingi sem ber að veita framkvæmd þeirra aðhald.