Kaup á hlutafé í eignarhaldsfélögum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 20:16:05 (7758)

2004-05-05 20:16:05# 130. lþ. 110.25 fundur 957. mál: #A kaup á hlutafé í eignarhaldsfélögum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[20:16]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Í fjárlögum þessa árs og fjáraukalögum síðasta árs er samtals veitt úr ríkissjóði 150 millj. kr. til kaupa á hlutafé í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja hf. Í bréfi frá fjmrn. dags. 7. nóvember sl. kemur fram að þessu fé á að verja sem hlutafé inn í uppbyggingu meðferðarstöðvar við Bláa lónið á grundvelli samkomulags milli ríkissjóðs, eignarhaldsfélagsins og Bláa lónsins. Til þess að draga fram hvaða stefnumörkun liggur að baki þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem ég hef ekki gagnrýnt heldur lýst yfir stuðningi við, að fjárfesta í þessu verkefni, hef ég borið fram eftirfarandi fyrirspurnir:

1. Í hvaða skyni kaupir ríkissjóður hlutafé í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja fyrir 150 millj. kr.?

2. Við hvaða reglur, svo sem um val á verkefni, fjárhæð hverju sinni, staðsetningu og áhættu verkefnis, er stuðst við ákvörðun um kaup á hlutabréfum í eignarhaldsfélögum?

3. Er áformað að kaupa hlutafé í öðrum eignarhaldsfélögum fyrir sambærilegar upphæðir, svo sem þeim sem Byggðastofnun á hlut í fyrir hönd ríkissjóðs?

Þar er verið að vísa til þess, virðulegi forseti, að á árunum 1999--2001 lagði ríkissjóður til 900 millj. kr. inn í eignarhaldsfélög sem Byggðastofnun átti hlut í til þess að efla atvinnulíf á einstökum svæðum landsins með kaupum á hlutafé í fyrirtækjum á þeim svæðum. Frá þessari stefnu var horfið árið 2002 og hefur hún ekki verið endurvakin síðan. Ég tel það miður því að það er mikil þörf á því, virðulegi forseti, að styrkja atvinnulíf víða um land, ekki bara í Grindavík eða Bláa lóninu, heldur líka á ýmsum veikum svæðum landsbyggðarinnar þar sem störfum hefur fækkað verulega, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Því leikur mér forvitni á að vita, herra forseti, hvaða stefnumörkun liggi til grundvallar þessari ákvörðun.