Kaup á hlutafé í eignarhaldsfélögum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 20:18:50 (7759)

2004-05-05 20:18:50# 130. lþ. 110.25 fundur 957. mál: #A kaup á hlutafé í eignarhaldsfélögum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[20:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Það er spurt í fyrsta lagi: Í hvaða skyni kaupir ríkissjóður hlutafé í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja fyrir 150 millj. kr.?

Kaup ríkissjóðs á viðbótarhlutafé í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja voru gerð til að auðvelda því félagi að taka þátt í samstarfi um uppbyggingu meðferðarstöðvar við Bláa lónið og voru gerð á grundvelli samkomulags milli ríkissjóðs, Eignarhaldsfélags Suðurnesja hf. og Bláa lónsins hf. Meginmarkmið þessarar stöðvar er að bæta þjónustu við íslenska psoriasis-sjúklinga og styrkja alþjóðlega meðferðar- og rannsóknastarfsemi til að fjölga enn frekar meðferðardvölum erlendra psoriasis-sjúklinga við Bláa lónið.

Í öðru lagi er spurt: Við hvaða reglur, svo sem um val á verkefni, fjárhæð hverju sinni, staðsetningu og áhættu verkefnis, er stuðst við ákvörðun um kaup á hlutabréfum í eignarhaldsfélögum?

Því er til að svara að ekki eru til staðar neinar formlegar eða skráðar reglur sem ríkissjóður styðst við í vali á verkefnum hverju sinni. Fjmrh. hefur það ekki á stefnu sinni að festa fjármuni ríkisins í eignarhaldsfélögum og hefur því ekki sett fram reglur eða leiðbeiningar þar að lútandi. Stofnanir ríkissjóðs í C-hluta sinna hins vegar m.a. fjárfestingum fyrir ríkissjóð í samræmi við þá stefnu og hlutverk sem stofnununum hefur verið sett. Sem dæmi má nefna að í lögum um bæði Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins eru settar ákveðnar skorður við fjárfestingum, svo sem um fjárhæð og eðli verkefna. Byggðastofnun hefur einnig sett sér ákveðinn ramma um þau verkefni sem fjárfest er í. Þannig fjárfestir Byggðastofnun í ekki meira en 30% af hlutafé hvers félags. Fjárhæð fjárfestingar er yfirleitt á milli 5 og 10 millj. kr. og forðast skal að fjárfesta í félögum sem búa við samkeppni.

Þar sem fjmrn. fyrir hönd ríkissjóðs hefur staðið í fjárfestingum hefur verið reynt að meta hvert tilvik fyrir sig út frá til að mynda gæðum, áhættu og staðsetningu verkefna en einnig ýmsum sjónarmiðum eins og þingmönnum er kunnugt. Ég nefni sem dæmi kaup á hlutafé í Farice hf. og svo á eignarhluta sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða hf.

Í þriðja lagi er spurt: Er áformað að kaupa hlutafé í öðrum eignarhaldsfélögum fyrir sambærilegar upphæðir, svo sem þeim sem Byggðastofnun á hlut í fyrir hönd ríkissjóðs?

Ekki eru uppi sérstök áform um ný framlög til annarra eignarhaldsfélaga. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að í fyrra var stofnað til sérstaks átaks þegar lagðar voru fram 700 millj. kr. samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar og Alþingis til sérstaks atvinnuþróunarátaks sem ég hygg að þingmönnum sé öllum vel kunnugt um. Það er gert ráð fyrir að Byggðastofnun ráðstafi þessu fjármagni til verkefna á sviði atvinnuþróunar á landsbyggðinni og að við ráðstöfun fjárins verði tekið mið af þeim áherslum sem fram komu í byggðaáætlun 2002--2005 og haft samráð við aðra þá sem vinna að atvinnuþróunarverkefnum.