Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:33:44 (7763)

2004-05-10 22:33:44# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að gera alvarlegar athugasemdir við og mótmæla því sérkennilega, ég vil segja afbrigðilega vinnulagi og þinghaldi sem hér er nú ástundað. Rétt fyrir klukkan sex í dag sat ég á skrifstofu minni og þá var hringt frá skiptiborði Alþingis og boðað að í fyrramálið hæfist fundur klukkan 10.30. Er ekki mikið um það að segja. Þegar ég spurði eftir því hins vegar hvað þar yrði á dagskrá var svarið að engar upplýsingar væri hægt að veita um það. Því til viðbótar var boðað að hér yrði útbýtingarfundur klukkan 22.30 í kvöld, þ.e. sá fundur sem nú er hafinn. Þegar ég spurði hverju ætti að útbýta var engar upplýsingar heldur hægt að fá um það.

Ég hlýt að mótmæla þessum vinnubrögðum, herra forseti, og ég sé ekki hvaða nauðir rekur til þess að standa að málum með þessum hætti. Þar við bætast þær fréttir af allshn. að hinu umdeilda fjölmiðlafrumvarpi er troðið í gegnum hana og það rifið þar út. Vinnubrögðin, og þau frammi fyrir alþjóð, eru til stórkostlegs vansa fyrir Alþingi, að láta menn horfa upp á slíkt þegar í hlut á svo afar umdeilt mál sem þar er á ferðinni. Umsagnarfrestur er hafður svo skammur að það er nánast til málamynda og hlutirnir unnir þannig að málið er rifið út úr nefnd rétt fyrir klukkan tíu þegar útbýtingarfundur hefur verið boðaður fyrir fram alllöngu áður en nefndin hefur lokið störfum. Það er augljóst að þar eru hrein formsatriði á dagskrá. Það verð ég að segja þeim til hróss, meirihlutamönnum í allshn., að þeir eru býsna vaskir í textagerð því að hér er komið nefndarálit á sjöttu blaðsíðu og brtt. á borð okkar þingmanna hálftíma eftir að nefndin lýkur störfum. Hvers konar framkoma er það við minnihlutamenn í nefndinni að hafa svo skamman tíma til að skoða það sem kemur frá meiri hlutanum, bregðast við því og ganga frá sínum málum?

Þetta eru, herra forseti, stórkostlega ámælisverð vinnubrögð. Það er engin ástæða til að viðhafa þau í ljósi þess að okkur er ekkert að vanbúnaði að taka þann tíma í þingstörfin sem gerir okkur kleift að ástunda þau með eðlilegum hætti.

Ég mótmæli þessu, herra forseti.