Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:36:09 (7764)

2004-05-10 22:36:09# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:36]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegur forseti. Þessi málsmeðferð í kringum þetta mál er mjög alvarleg og ég vil ganga svo langt að segja að hér hafi verið framið, og sé framið, tilræði við lýðræðið, hvorki meira né minna.

Virðulegur forseti. Þetta frv. hefur verið keyrt af mikilli hörku í gegnum allshn. þingsins. Það hefur ekki verið vilji fyrir því af hálfu meiri hlutans að leita óháðra sérfræðiálita hjá Lagastofnun Háskóla Íslands eða hjá öðrum stofnunum sem gætu gefið óvilhöll álit um þær alvarlegu athugasemdir sem þar hafa komið fram. Ég fullyrði, virðulegi forseti, að ekki nokkurt stjórnarfrumvarp hafi nokkru sinni í sögu þessa þings fengið aðra eins útreið í umsögnum og þetta frv. Af þeim mörgu tugum umsagna sem hafa borist man ég eftir þremur, virðulegi forseti, sem taka undir með nauðsyn þess að gera þetta frv. úr garði eins og það er, og það eru allt saman samkeppnisaðilar við það fyrirtæki, við þá tilteknu sjónvarpsstöð sem frv. beinist gegn.

Alvarlegar athugasemdir hafa komið fram frá okkar helstu sérfræðingum í stjórnskipunarrétti um að frv. stangist á við fjölmörg ákvæði stjórnarskrár. EES-reglurnar gleymdust, virðulegi forseti, það gleymdist að skoða þær í vinnunni fyrir undirbúning frv. Frv. hefur þann tilgang fyrst og síðast að knésetja eitt tiltekið fyrirtæki. Þær brtt. sem nú liggja fyrir, virðulegi forseti, breyta engu um það. Þær eyða ekki þeirri óvissu sem ríkir um frv. gagnvart stjórnarskrá, EES-reglum og því að hér sé ekki gætt meðalhófs eins og ber að gera í lagasetningu og að auki að hér séu í raun ekki málefnaleg og lögmæt sjónarmið að baki þessari lagasetningu. Það hefur líka margsinnis komið fram í umræðunni. Að auki skilja margir, a.m.k. margir hæstv. ráðherrar, frv. svo að það snúist um að koma í veg fyrir tiltekna umræðu í fjölmiðlum.

Það er ögrun við tjáningarfrelsið, virðulegi forseti.