Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:54:32 (7773)

2004-05-10 22:54:32# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:54]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja sem þingmaður sem er að ljúka sínum fyrsta vetri á hinu háa Alþingi að mér er illa brugðið í kvöld. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með störf þingsins í vetur en aldrei orðið fyrir jafnmiklum vonbrigðum og nú í kvöld. Þingið starfar ekki með nógu virkum hætti, ég hef gagnrýnt það áður í opinberri umræðu, en það er verra en það, það starfar líka með röngum hætti.

Mér finnast það alveg forkastanleg vinnubrögð, hæstv. forseti, hvernig frv., hinu svokallaða fjölmiðlafrv. ríkisstjórnarinnar, er troðið með offorsi og nánast ofbeldi í gegnum þingið. Það er verið að fótumtroða lýðræðið og lýðræðislega umræðu í landinu. Það er alveg rétt sem bent hefur verið á í kvöld að það liggur ekki svo mikið á að koma frv. í gegn. Hvers vegna er ekki hægt að nota sumarið til að vinna í svo mikilvægu og vandasömu máli og takast síðan á við þá vinnu í haust? Hvað gerir það að verkum að það liggur svona ofboðslega mikið á? Þeirri spurningu þurfa stjórnarliðar að svara. Þeir verða að svara spurningunni. Þetta er spurning sem brennur á þjóðinni. Hvað er það sem gerir það að verkum að svona mikið liggur á? Við krefjumst þess að fá svör við því, ef ekki nú í kvöld þá á morgun eða hinn þegar frv. kemur til 2. umr. Þessari spurningu verður að svara.

Það hefur verið alveg með ólíkindum að vera hér í kvöld og horfa á það, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á áðan, að hér í salnum er ekki einn einasti framsóknarmaður. Enginn. Fjarvera þeirra er æpandi og ég spyr líka: Hvar eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar? Hér eru auðir bekkir bæði til vinstri og hægri. Hvar eru höfuðpaurarnir? Hvar er hæstv. forsrh. Davíð Oddsson í kvöld og hvar er hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, verðandi forsrh., í kvöld? Þora þessir menn ekki að horfast í augu við þjóð sína? Þora þeir ekki að horfast í augu við þingið? Mér er spurn.