Dagskrá næsta þingfundar

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:57:54 (7775)

2004-05-10 22:57:54# 130. lþ. 111.94 fundur 544#B dagskrá næsta þingfundar# (um fundarstjórn), KLM
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:57]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það er alveg með ólíkindum sem birtist okkur í dag. Mig langar aðeins að fara yfir daginn.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði forseti boðað formenn þingflokka til fundar í hádeginu. Ekkert slíkt boð barst. Klukkan 16.40 var boðaður fundur með stuttum fyrirvara hjá forseta. Þegar komið var til fundar lá auðvitað í loftinu og það sá maður á þeim dagfarsprúða forseta þess fundar að eitthvað lá í loftinu þó að lítið væri sagt hverju yrði dreift í kvöld, getið um eitt eða tvö mál sem hugsanlega yrði dreift en ekkert um þetta mál, þ.e. fjölmiðlafrv. Og það verður að taka undir með þeim sem það hafa sagt að það eru mikil afrek að búa til þetta nál. og dreifa því í kvöld.

Virðulegi forseti. Ef þetta er innlegg til að auðvelda þingstörfin og koma til móts við þingmenn alla þá segi ég að það eru úrelt vinnubrögð sem tilheyra gamla tímanum allt aftur til 1950 eða 1940 eða hvað má taka sem dæmi. Ég held að verið sé að setja af stað leikrit. Við munum núna taka þátt í og sjá, og landsmenn allir, framhaldsleikrit sem hófst á heimastjórnarafmælinu. Það skyldi þó ekki vera að stjórnarmeirihlutinn þegi þunnu hljóði það sem eftir er í umræðu um málið og enginn taki þátt í umræðunni. Stjórnarandstöðuþingmenn munu að sjálfsögðu taka þátt í henni. Hver er svo tilgangurinn, herra forseti? Er það kannski tilgangurinn að forseti Alþingis geti setið í forsæti og undirritað þessi skrýtnu lög sem eru ekkert annað en ólög? Er það svo að vegna þess að forseti Íslands er að fara í brúðkaupsveislu til Danmerkur að forseti Alþingis og þeir sem fara með handhafavald forseta í fjarveru hans eigi að klára málið um helgina?

Herra forseti. Má ég þá ráðleggja ykkur eitt. Gerið þið það bara áfram í skjóli nætur. Hafið myrkur yfir ykkur þegar þið gangið í þá ósvinnu. Það er með ólíkindum, virðulegi forseti, þegar tekið er tillit til þess að tvær nefndir sem fengu málið til sín frá allshn., efh.- og viðskn. og menntmn., eru rétt að hefja störf um það að þá er nál. bara komið. Og þögn hinna ungu hv. þingmanna sem öllu ætluðu að breyta ef þeir kæmust til valda er æpandi. Óskaplega mun maður (Forseti hringir.) kenna í brjósti um þá þingmenn sem þurfa að sitja í sæti sínu og brosa og jafnvel þegja.