Dagskrá næsta þingfundar

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 23:04:51 (7780)

2004-05-10 23:04:51# 130. lþ. 111.94 fundur 544#B dagskrá næsta þingfundar# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[23:04]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég var á umræddum fundi formanna þingflokka í dag og minnist þess ekki að minnst hafi verið á útvarpslög eða samkeppnislög í tengslum við útbýtingarfundinn í kvöld.

Hins vegar er það rétt hjá hæstv. forseta að hann sagði að til greina kæmi að dreift yrði þingskjali um réttindi og skyldur og gaf til kynna að málið kynni að verða rætt á þingfundinum á morgun. Ég sagði að ég mundi mótmæla því mjög harðlega ef svo yrði gert, enda er komið á daginn að öll þingskjöl í því máli eru ekki komin fram. Það er komið fram eitt álit, eitt minnihlutaálit frá stjórnarmeirihlutanum á Alþingi, og það segir sína sögu. Fyrsti minni hluti hefur skilað áliti. Annar og þriðji minni hluti eiga eftir að skila áliti.

Í síðustu viku var langur listi þingmála á dagskrá þingsins, mála sem ríkisstjórnin hefur sagt að hún legði áherslu á að næðu fram að ganga fyrir þinglok. Nú spyr ég: Hvers vegna eru þau mál ekki tekin til umræðu á dagskrá þingsins á morgun? Ég nefni húsnæðismál og lög um fæðingarorlof. Er þetta gert til þess að ögra þinginu? Er þetta gert til þess að ögra stjórnarandstöðunni á þingi, að rífa úr nefndum ókláruð mál án þess að öll þinggögn séu komin fram á þinginu og krefjast þess að við tökum umræðu um málið?

Ég mótmæli harðlega þessum vinnubrögðum og vek athygli hæstv. forseta þingsins á því að gangi þetta eftir með þessum hætti verður því mjög kröftuglega mótmælt í upphafi þingfundar á morgun.