Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 10:42:21 (7800)

2004-05-11 10:42:21# 130. lþ. 112.91 fundur 545#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[10:42]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að nú er að hefjast 2. umr. um frv. hæstv. forsrh. um lög um eignarhald á fjölmiðlum vil ég vekja athygli á að svo háttar til að allshn. Alþingis óskaði umsagnar menntmn. vegna málsins og fundaði nefndin í fyrsta sinn vegna þessa síðdegis í gær. Þar lögðum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar fram ítarlegan lista yfir þá gesti sem við teljum nauðsynlegt að nefndin kalli á fund sinn til að varpa ljósi á möguleg áhrif umrædds frv. á íslenska menningu og miðlun í víðustu merkingu þess orðs.

Það er ljóst að nái frv. fram að ganga verða áhrif þess á íslenskt menningarlíf gríðarleg og því er nauðsynlegt að menntmn. komi ítarlega og af mikilli vandvirkni að allri vinnu við frv. Nú hefur ekki reynt á það að fullu hvort hv. formaður nefndarinnar, Gunnar Birgisson, verður við þeirri ósk okkar en ég mótmæli þeirri sýndarmennsku sem aðkoma nefndarinnar er í ljósi þess að hér er að hefjast 2. umr. um málið áður en nefndin hefur störf sín um frv. Þetta er málsmeðferð sýndarmennskunnar og verið er að gera lítið úr aðkomu menntmn. að málinu sem rammar inn þá ólýðræðislegu flýtimeðferð sem er á þessu máli öllu. Hraðinn á málsmeðferðinni er slíkur að furðu vekur en kannski ekki skrýtið þar sem lagasetningunni er fyrst og fremst stefnt gegn einu fyrirtæki.

Á fundi menntmn. í gær fórum við fram á að valinkunnur hópur fræðimanna, höfundar fræðibóka um fjölmiðla, reyndir blaða- og fréttamenn, ritstjórar og faglegir yfirmenn á fjölmiðlum, hinir ýmsu fulltrúar stéttarfélaga innan atvinnugreinar menningarinnar auk fulltrúa Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna, yrði kallaður á fund nefndarinnar þar sem hann gæti gefið okkur ítarlegt yfirlit yfir það hvernig hann telur að umrætt frv. eigi eftir að koma við fagfélögin og við alla þætti íslenskrar miðlunar og menningarlífs. Við þessu virðist ekki eiga að verða og óska ég eftir að forseti og hv. formaður nefndarinnar greini frá því hvernig þeir hyggjast tryggja aðkomu menntmn. að vinnu að máli sem hafin er 2. umr. um.