Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 10:49:08 (7804)

2004-05-11 10:49:08# 130. lþ. 112.91 fundur 545#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[10:49]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það er rétt að halda því til haga að í morgun óskaði ég eftir því við starfsmann þingsins að forseta þingsins yrðu borin þau skilaboð að við óskuðum eftir fresti á fundi til klukkan tvö þannig að allsherjarnefndarfólki gæfist tími til að vinna nefndarálit. Eðli málsins samkvæmt fengum við náttúrlega ekki svar við því strax en það furðulega er að á fundi forsn. er mér tjáð að ekki hafi verið minnst á þessa ósk okkar.

Það má taka undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði: Það eru ansi krókóttar leiðir sem hér eru nú farnar um störf og stjórn þingsins. Það er greinilegt, og við sáum það strax eftir ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hér kom forsrh. á eftir með hálfgerða tilskipun innan gæsalappa um hvernig skyldi unnið áfram.

Er það ekki akkúrat þetta sem okkur er að birtast, og þjóðinni, hér dag frá degi í þessum furðulegu vinnubrögðum sem viðhöfð eru á Alþingi nú um mundir?

Ekki voru margir þingmenn í salnum í gærkvöldi á útbýtingarfundi, sérstaklega vantaði þingmenn Framsfl. og það er rétt að þeir viti þá um hvernig hlutirnir ganga hér. (Gripið fram í: Hvaða, hvaða?) (Gripið fram í: Hvaða ...?) Það voru engir hv. þm. Framsfl. í þingsal. Við getum haft það í huga ef þeir hafa verið hér til hliðar. (Gripið fram í: Þetta er ómerkilegur málflutningur.) Ef þeir hafa verið hér til hliðar, hv. þm. Magnús Stefánsson, skulum við ræða um það á eftir hvers vegna þingmenn Framsfl. voru ekki í salnum.

Ég vil segja það hins vegar, herra forseti, og ítreka það svo að allur þingheimur sem hér situr heyri að það er rangt hjá forseta Alþingis að hann hafi sagt það á fundi með formönnum þingflokka í gær að þetta umdeilda mál yrði tekið til útbýtingar á fundinum í gærkvöldi. Það er beinlínis rangt og það eru ósannindi, eins og staðfest var hér af öðrum formanni þingflokks í gær.

Hæstv. forseti setur niður við það að koma með svona tilbúning og aðdróttanir. Ég vil helst ekki taka mér í munn fleiri orð um svona vinnubrögð.