Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:17:00 (7810)

2004-05-11 14:17:00# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Hæstv. dómsmrh. sagði að hér væri um pólitíska ábyrgð að ræða. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra og hann er í vondum málum í því samhengi. Við þingmenn vitum það, þjóðin veit það og ráðherrann veit það líka innst inni, þótt hann eigi erfitt með að viðurkenna það. Aðferðir hans og ákvarðanir við skipan hæstaréttardómara voru með þeim hætti að í raun velkist enginn í vafa um að Björn gerði rangt, gerði mistök, gekk á svig við jafnréttislög, gekk fram hjá hæfum umsækjendum og valdi samkvæmt geðþótta eða flokkspólitískum forsendum. Það er öllum ljóst.

Máttlausar en um leið hrokafullar tilraunir hans, hér og annars staðar, til varnar gjörðum sínum, raunar misgjörðum, í kjölfarið voru máttlausar og sumpart broslegar. Þær gerðu að sumu leyti illa gjörð verri og voru í besta falli kattarþvottur.

Umboðsmaður Alþingis, fræðimaður sem er virtur hér inni sem og meðal þjóðarinnar allrar, tók ráðherrann í kennslustund í lögfræði, stjórnsýslureglum og meðferð valds. Samt þrætir ráðherrann, mér liggur við að segja eins og sprúttsali sem gripinn er á vettvangi. Öllum sem fylgst hafa með eru málsatvik ljós. Þau er óþarfi að rekja hér að nýju. Ákvarðanir ráðherrans verða því miður ekki aftur teknar enda er það svo að nýr hæstaréttardómari, vafalaust ágætur maður sem ráðherrann skipaði og á ekki að gjalda þessa, er ekki sá seki í málinu heldur sá sem ákvörðunina tók, þessi maður hér, hæstv. ráðherra Björn Bjarnason.

Hvað skal til bragðs taka? Best væri auðvitað að koma núverandi ríkisstjórn frá í hvelli. Næstbesti kosturinn er sá að ráðherrann sýni annars vegar iðrun, biðjist afsökunar, og hins vegar yfirbót og lofi því að taka saman höndum við þingheim við að gera bragarbót á og gjörbreyta verklagi við skipan hæstaréttardómara. Hann gaf það til kynna í ræðu sinni og það er fagnaðarefni að hann er loksins farinn að sjá ljósið.

Að lokum þetta, frú forseti. Hæstv. ráðherra, ekki meir, ekki meir.