Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:19:17 (7811)

2004-05-11 14:19:17# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), SKK
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Frú forseti. Hér hafa þungir dómar fallið og menn verið sakaðir um að brjóta lög. Máli sínu til stuðnings vísa hv. þingmenn til nýlegs álits umboðsmanns Alþingis. Ég verð að segja að ég hef ýmislegt við niðurstöður umboðsmanns að athuga enda tel ég að í áliti sínu hafi umboðsmaður komist að niðurstöðu á grundvelli sjónarmiða sem ekki er að finna í settum landsrétti.

Í áliti umboðsmanns er mikið lagt upp úr því að með lagabreytingu 1998 hafi áhrif Hæstaréttar á val dómara við réttinn verið aukin. Það hafi verið gert með því að útvíkka umsögn réttarins í að fjalla bæði um hæfi og hæfni umsækjenda og einnig því að ekki megi veita umsækjanda embætti ef í umsögn réttarins kemur fram það álit að hann fullnægi ekki skilyrðum dómstólalaga til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar.

Í því máli sem hér er til umræðu vill svo til að Hæstiréttur veitti umsögn samkvæmt lögunum og taldi alla umsækjendur uppfylla kröfur um hæfi og hæfni. Með þeim hætti hafði rétturinn öll þau auknu áhrif sem lögin kveða á um. Ég tel í besta falli undarlegt að umboðsmaður skuli nota þessa röksemd til að álykta sem svo að rétturinn eigi að hafa meiri áhrif á veitingu embætta við dóminn en felst í skýrum texta laganna. Það er sérkennilegt að telja brotið gegn rannsóknarreglu með því að leita ekki frekari gagna um þekkingu annarra umsækjenda á Evrópurétti fyrst ráðherra taldi þekkingu dómarans ráða úrslitum við veitingu embættisins. Virðist umboðsmaður m.a. gefa í skyn að ráðherra hefði borið að leita upplýsinga um þetta hjá umsækjendum sjálfum. Þetta fær ekki staðist. Hvergi í landslögum er að finna þá lagareglu sem styður það sjónarmið umboðsmanns að afla hefði þurft sérstakrar umsagnar Hæstaréttar um þýðingu þekkingar á Evrópurétti fyrst ráðherra vildi ganga út frá henni.

Að mínu mati er enginn vafi á því að ráðherra uppfyllti í málinu lagaskyldu sína til að leita álits Hæstaréttar áður en hann veitti embættið. Hann braut því ekki lög heldur fór hann eftir þeim. Ég vil taka fram að ég tel að taka beri álitið til skoðunar en ítreka að niðurstaða umboðsmanns er með þeim annmarka að hún byggir á sjónarmiðum sem ekki er að finna í settum lögum.