Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:21:46 (7812)

2004-05-11 14:21:46# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), ISG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Sú embættisgjörð dómsmrh. sem hann hefur reynt að verja á hinu háa Alþingi gerir tvennt: Annars vegar brýtur hún gegn jafnræðisreglum og hins vegar gegn jafnréttissjónarmiðum, þ.e. reglur bæði um jafnræði og jafnrétti eru brotnar í þessari embættisfærslu dómsmrh.

Í sjálfu sér var málsvörn ráðherrans áðan ekki slæm. Það var allt í lagi með hana miðað við þá málsvörn sem við höfum heyrt frá þessum ágæta ráðherra hingað til. Í fyrsta lagi sagði ráðherrann, þegar hann skipaði í embættið á sínum tíma í einhvers konar bernskri óskammfeilni, leyfi ég mér að segja, við fjölmiðla að hann hefði byggt á málefnalegum sjónarmiðum og ákvörðun hans væri yfir gagnrýni hafin, virðulegur forseti. Auðvitað var þessi ákvörðun ekki yfir gagnrýni hafin frekar en nokkur önnur ákvörðun sem stjórnvöld taka ef út í það er farið. En núna kemur hann aftur fram í bernskri óskammfeilni á heimasíðu sinni og segir, með leyfi forseta, að álit umboðsmanns hafi ,,að geyma lögfræðilegar vangaveltur, sem eru til leiðbeiningar um framtíðina, án þess að umboðsmaður hnekki niðurstöðu minni ...`` Bíðum við, hvaða vald hefur umboðsmaður til þess að hnekkja niðurstöðu ráðherrans? Hvert er vald umboðsmanns til þess?

Við höfum hlustað á málflutning stjórnarliða í þessu máli og hann einkennist af valdhroka og óskammfeilni. Hér hefur verið beitt geðþóttavaldi, ekki bara í þessu máli heldur í mörgum öðrum málum sem við höfum þurft að horfa upp á í þinginu og eigum eftir að horfa upp á á næstu dögum. Hvert sækja menn svo stuðning í þessum málum? Hvert sækja menn lögfræðilegan stuðning við það sem þeir eru að gera hérna? Í Jón Steinar Gunnlaugsson, leiðarahöfund Morgunblaðsins og Sigurð Kára Kristjánsson, þar er lögfræðilegi stuðningurinn.