Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:59:31 (7822)

2004-05-11 14:59:31# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á þetta. Enginn hefur skorast undan því að taka afstöðu í þessu máli, enginn. Enginn í stjórnarandstöðunni hefur skorast undan því. Allir í stjórnarandstöðunni hafa talað um að þessa hluti þurfi að skoða. Við höfum bara líka mælst til þess að við fáum góðan tíma.

Það er alveg rétt sem hv. þm. bendir á, fyrir liggur vönduð og ítarleg skýrsla, menn hafa verið sammála um það. Sú skýrsla gefur einmitt tilefni til að þessi mál verði rædd á málefnalegan hátt og að ekkert verði gert nema að vel ígrunduðu máli. Því miður er allt of margt sem bendir til þess að hér sé verið að fara fram með handvömm og fautaskap sem sennilega mun leiða til þess að ríkið verður skaðabótaskylt svo nemur hundruðum milljónum króna. Hér verður framið stórslys í sal hins háa Alþingis innan örfárra daga og það er ólíðandi.