Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:08:00 (7831)

2004-05-11 15:08:00# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Þá er það komið fram hjá hv. þingmanni að öll lætin eru út af því að ekki var beðið í tvær vikur enn. Orð hans verða ekki skilin á annan veg en að við hefðum átt að bíða í tvær vikur í viðbót. (Gripið fram í: ... það er ...) Ég hygg að það sé algjörlega óraunhæft af hv. þingmanni að ætla að með öllu verði skorið úr á þeim tíma þeim lögfræðilegu álitaefnum sem uppi eru í málinu. Ég tel hins vegar að við höfum tekið á hverju og einu þeirra í nefndarálitinu, ítarlega og rökstutt það. Nú er kominn tími til þess að þingmenn sem hér gera athugasemd við frv. taki þau atriði til skoðunar og fari inn í efnislega umræðu um málið.