Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:10:10 (7833)

2004-05-11 15:10:10# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Allshn. fékk á sinn fund, að ég hygg, 21 lögfræðing. Að vísu komu ekki allir fyrir nefndina sem sérfræðingar en fjölmargir aðilar komu fyrir hana sem slíkir. Einkum vorum við að funda með aðilum sem voru komnir til nefndarinnar til þess að taka á þeim lögfræðilegu álitaefnum sem við fjöllum um í nefndarálitinu. (Gripið fram í: Þeir eru allir á móti.) (BH: Allir á móti því.) Það er með öllu óþolandi að sitja undir því að þeir sem eru á móti frv. haldi því fram að allir sérfræðingar sem komu á fund nefndarinnar hafi fullyrt eitt eða annað. (Gripið fram í.) Það er bara rangt. Það er beinlínis rangt. (MÁ: ... Jón Steinar ... ) Það komu fram sjónarmið um að einstök atriði í frv. kynnu að stangast á við eitt eða annað í stjórnarskrá, mannréttindasáttmálanum eða evrópskum reglum (BH: Af hverju var það þá ekki kannað?) og brtt. nefndarinnar miða sérstaklega að því að koma til móts við þær ábendingar. Það er staðreynd málsins.