Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:12:17 (7835)

2004-05-11 15:12:17# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Frv. tengist að engu leyti þeim atriðum sem hv. þm. vísar til, ekki með nokkru móti. Ég hygg að þeir sem gefa sér tíma til að fara yfir skýrsluna, í fyrsta lagi, og skoða þá umræðu sem þar kemur fram, þar sem öllum hliðum á þessum málum er velt fram og til baka, staðan í öðrum löndum skoðuð, farið yfir það hvaða úrræði koma til álita til að bregðast við þeirri stöðu sem allir stjórnmálaflokkar sem hér sitja eru sammála um að þurfi að bregðast við, verði einhvers vísari. Farið er yfir úrræðin sem koma til álita. Frv. rúmast innan þeirra tillagna sem nefndarmenn benda á, (Gripið fram í.) þeirra leiða sem nefndin bendir á. Að því leytinu til er ómögulegt annað en að komast að þeirri niðurstöðu að frv. sé unnið 100% á faglegum grunni. Það er ekkert annað sem vakir fyrir mönnum með þessari lagasetningu en að ná því markmiði sem er yfirlýst og fylgir með frv., þ.e. að bregðast við þeirri eignasamþjöppun sem hefur átt sér stað á fjölmiðlamarkaði. (Gripið fram í: Er Mörður ...?)