Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:57:26 (7841)

2004-05-11 15:57:26# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef starfað á hinu háa Alþingi í rúm tvö kjörtímabil. Yfirleitt er það svo að þegar stjórnarfrumvörp eru lögð fram að á bak við þau eru álit sérfræðinga sem treysta sér til að fullyrða að frumvörp brjóti ekki í bága við stjórnarskrá.

Virðulegur forseti. Það verður að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstjórnar, varðandi frumvörp sem hún leggur fram og munu hafa í för með sér miklar breytingar fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, að a.m.k. einn óháður sérfræðingur treysti sér til að fullyrða að þau brjóti ekki í bága við stjórnarskrá. Ég geri þá kröfu, virðulegur forseti.

Vegna málsmeðferðar nefndarinnar, sem ég tel algerlega óviðunandi, hlýt ég að spyrja hv. þm. hvers vegna í ósköpunum mátti ekki leita álits Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem oft er leitað til í svona tilvikum, eða Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík til að fá mat þeirra aðila? Gæti ekki hv. þm. sofið örlítið betur í framtíðinni ef slíkt álit hefði a.m.k. legið á bak við það að málið væri látið fara fram óbreytt, eftir allar þær fjölmörgu athugasemdir sem hér hafa komið fram?

Hv. þm. getur ekki fullyrt það, eftir að málsmeðferð í nefndinni hefur verið rakin, að meðferðin hafi verið eðlileg. Ég fullyrði að svo var ekki. Ég hef aldrei nokkurn tíma séð aðra eins málsmeðferð frá upphafi til enda í nefnd, hef ég þó starfað hér um nokkurt skeið. Þegar reynt er að halda því fram að svona vinnubrögð séu eðlileg þá tel ég illa komið fyrir hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar, ef þeir telja virkilega í hjarta sér að svona vinnubrögð og slíkur hraði sé eðlilegur við meðferð mála af þessu tagi.