Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:59:29 (7842)

2004-05-11 15:59:29# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur kom ýmislegt fram en þrátt fyrir það eru ýmis atriði sem ekki hafa fengist útskýringar á varðandi fullyrðingar sem þar koma fram. Ég get þó byrjað á því að svara spurningum sem hún varpaði fram þegar hv. þm. talaði um Ríkisútvarpið og áhyggjur okkar sjálfstæðismanna af því, af skipan útvarpsráðs o.s.frv. Áhyggjurnar koma fram á þskj. 407, í 337. máli, í frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem ég, hv. þm. Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson höfðum lagt fram á þingi. Það gerir ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði einkavætt. Ég minni hins vegar á að í umræðunni um það frv. lagði Samf. mikla áherslu á að það væri ekki hægt að einkavæða Ríkisútvarpið vegna þess að það yrði að vera til mótvægi við þá stóru aðila sem nú þegar starfa á fjölmiðlamarkaði og mundu að öðru óbreyttu gleypa Ríkisútvarpið án þess að nokkrum vörnum verði við komið.

En þá að öðru. Í nál. minni hluta allshn. er því haldið fram að ýmis ákvæði frv. brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er reyndar ekki rökstutt mjög ítarlega. Því er fyrst og fremst haldið fram. Mig langar að spyrja hv. þm. að því, af því að það er tiltekið að frv. feli í sér brot á tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar: Hvernig má það vera, þegar það liggur fyrir samkvæmt frv. að hver einasti einstaklingur eða lögaðili geti átt og rekið dagblað hér á landi og hver einasti einstaklingur eða lögaðili geti átt eða rekið ljósvakamiðil? Í hverju felst þessi takmörkun á tjáningarfrelsi sem haldið er fram að felist í frv.?