Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:24:08 (7852)

2004-05-11 16:24:08# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir fer hér með kenningu. Ég skal ekki segja um það hvort forseti hafði rétt fyrir sér áðan þegar hann taldi að ræða hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar ætti heima undir liðnum um fundarstjórn forseta. Ég treysti því að sá þáverandi forseti hafi haft rétt fyrir sér í því, af því að þinginu á að stjórna vel og réttilega.

Ég hóf þessa umræðu um fundarstjórn forseta vegna þess að ég fór fram á að þessum fundi yrði frestað eða hann blásinn af og boðað til nýs fundar eftir að menntmn. kemur saman kl. 8.15 á morgun. Ef það varðar ekki fundarstjórn forseta veit ég eiginlega ekki hvað á að ræða undir liðnum um fundarstjórn forseta, satt að segja.

Ef ekki er hægt að verða við þessari bón, sem ég vona að verði, er ekki að sjá að fundur í menntmn. á morgun, þangað sem boðaðir hafa verið fimm menn sem hafa örugglega margt annað að gera en að eyða tíma sínum til einskis, hafi neitt gagn. Álit hans og það sem við fáum að vita hjá því fólki skilar sér ekki inn í þessa 2. umr. sem samkvæmt þinghefðum er meginumræða um mál, umræðan þar sem á að fara í hvern bókstaf og hverja tölu í því efni sem um er að ræða. Það er alveg fáránlegt þegar slíkur fundur hefur verið boðaður í menntmn., sem óljóst var hvort af yrði, að þingheimur nýti ekki það tækifæri sem sá fundur gefur til þess að ræða niðurstöður hans og það álit sem menntmn. kemst að, sameinuð eða af meiri hluta og minni hluta, um það efni sem þar fer fram á þeim fundi og hugsanlega þá fleiri fundum. Við skulum samt hafa þann fund fyrstan.

Ég ítreka þá ósk mína að forseti annaðhvort fresti þessum fundi þangað til á morgun eftir menntamálanefndarfundinn klukkan 10, þegar honum lýkur að venju, eða geri stutt fundarhlé til þess að bera sig saman við formenn þingflokka og eftir atvikum aðra í forsn. um þessa kröfu.